Margir af stærstu fjölmiðlum heimsins slá upp sigri Íslands á Tyrkjum í gær, 0-3, og segja að Ísland gæti orðið fámennsta landið í sögunni til að tryggja landsliði þátttökurétt í úrslitakeppni HM.
Ísland er í efsta sæti riðilsins með 19 stig, tveimur stigum meira en Króatía, þegar aðeins ein umferð er eftir í riðlakeppninni. Ef Ísland vinnur Kósóvó, sem er í neðsta sæti riðilsins með eitt stig og engan unninn leik til þessa, þá er farseðillinn á HM í Rússlandi tryggður.
Fari svo að Íslandi takist að sigra og tryggja þátttökuréttinn, þá verður Ísland fámennasta þjóðin til að tryggja sér þátttökurétt í úrslitakeppni bæði EM og HM, en eins og kunnugt er þá komst Ísland alla leið í átta liða úrslit á EM í Frakklandi í fyrra.
Í umfjöllun Washington Post, Reuters, BBC, Skysports, og fleiri miðla, er sérstaklega einblínt á þá staðreynd að Ísland sé smáþjóð sem sé að ná eftirtektarverðum árangri.
Tyrkir ósáttir með Arda Turan - Brosti eftir leik https://t.co/FcF188khgh #fotbolti
— Fótbolti.net (@Fotboltinet) October 7, 2017
Ísland var mun betri aðilinn í leiknum gegn Tyrkjum. Jóhann Berg Guðmundsson skoraði fyrsta markið, Birkir Bjarnason annað markið og Kári Árnason það þriðja. Varnarleikurinn var ógnarsterkur og sóknarleikurinn beinskeyttur. Tyrki áttu aldrei möguleika gegn sterku liði Íslands.