Íslenska karlalandsliðið í fótbolta spilar á morgun síðasta leik sinn í riðlakeppni HM, gegn Kósóvó á Laugardalsvelli, og getur tryggt sér þátttökurétt í úrslitakeppninni sem fram fer í Rússlandi á næsta ári.
Í sjónmáli er ótrúlegur árangur á einu stærsta sviði íþróttanna, og það annað árið í röð, en sem kunnugt er komst landsliðið í lokakeppni EM og náði að komast alla leið í 8 liða úrslit, eftir frækinn 2-1 sigur á Englandi í 16 liða úrslitum.
Árangurinn var mikil lyftistöng fyrir rekstur knattspyrnuhreyfingarinnar (KSÍ). Veltan á síðasta ári fór úr rúmum milljarði króna í þrjá milljarða, og nam rekstrarhagnðurinn 861 milljón. Bónusgreiðslur til leikmanna og þjálfara námu 846 milljónum og greiðslur til aðildarfélaga fjórfölduðust.
Ef markmiðið um að komast á HM í Rússlandi næst, þá opnast dyrnar að jafnvel enn meiri peningum, en verðlaunaféð hefur verið hækkað um meira en fjórðung frá síðustu keppni í Brasilíu.
Fyrir það eitt að ná markmiðinu og komast áfram fær landsliðið samtals tólf milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 1,3 milljörðum króna. Þar af skiptast tvær milljónir Bandaríkjadala, eða um 210 milljónir króna, í undirbúningsupphæð vegna lokakeppninnar, og svo fara 10 milljónir Bandaríkjadala, eða um 1.050 milljónir króna, til allra liða fyrir það eitt að vera með í riðlakeppninni.
Tölurnar verða síðan enn hærri, eftir því sem lengra er komið í keppninni. Fyrir komast í 16 liða úrslit eru 12 milljónir Bandaríkjadala, um 1,3 milljarðar króna, til viðbótar og 18 milljónir Bandaríkjadala, um tveir milljarðar króna, fyrir komast í 8 liða úrslit, eins og Ísland gerði í fyrra á EM.
Íslenska landsliðið hefur örlögin alfarið í hendi sér núna, því ef liðið vinnur leikinn gegn Kósóvó þá er farmiðinn gulltryggður í lokakeppnina. Jafntefli gæti einnig dugað alla leið, en það fer eftir úrslitum í öðrum leikjum. Ísland er í efsta sæti riðilsins með 19 stig og Króatar í öðru sæti með 17 stig.