Augu íþróttaheimsins eru á Íslandi. Íslenska landsliðið í fótbolta getur skráð sig í sögubækurnar með því að tryggja sér þátttökurétt á HM í Rússlandi, ef liðinu tekst að vinna Kósóvó á Laugardalsvelli í kvöld.
Ísland yrði þar með fámennasta ríkið í sögunni til að eiga landslið á HM, líkt að það var einnig á EM í fyrra.
Stemmningin fyrir leiknum er nú þegar orðin rafmögnuð, en flautað verður til leiks 18:45.
Ísland er með 19 stig í efsta sæti riðilsins, en Króatía kemur næst með 17 stig. Sigur tryggir farseðilinn alla leið.
Staðan í riðlinum hefur verið mikið til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum, en fjölmargir erlendir fjölmiðlar hafa nú þegar sent blaða- og fjölmiðlafólk á leikinn til að fylgjast með leiknum.
On the verge of history. A nation on 300k thriving on investment into a sport. 👍🏽 https://t.co/hPdyXvFxiO
— Stan Collymore (@StanCollymore) October 8, 2017
Eins og var til umfjöllunar á vef Kjarnans í gær, er til mikils að vinna í peningum mælt. Ísland fær 12 milljónir Bandaríkjadala fyrir að tryggja sér farseðilinn til Rússlands, eða um 1,3 milljarða króna.
Leikmenn Ísland eru flestir meiðslalausir og tilbúnir í slaginn, en Emil Hallfreðsson, leikmaður Udinese á Ítalíu, snýr til baka úr banni. Það skýrist í dag hvernig byrjunarliðið verður, en reikna má með því að það verði það sama og lagði Tyrki af velli, 0-3, á dögunum.