Fylgi við Samfylkinguna eykst nær stöðugt í kosningaspánni og nú er svo komið að 11,9 prósent kjósenda hyggjast kjósa flokkinn í Alþingiskosningunum 28. október. Fylgi við Pírata heldur áfram að minnka og er nú 9,5 prósent og minna en fylgi við Miðflokk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Miðflokkurinn er með 9,7 prósent stuðning í kosningaspánni sem gerð var föstudagskvöldið 13. október, þegar rétt rúmar tvær vikur eru til kosninga. Í kosningaspánni eru niðurstöður fyrirliggjandi skoðanakannana á fylgi stjórnmálaflokka vegnar eftir fyrir fram ákveðnum viðmiðum. Baldur Héðinsson stærðfræðingur gerir kosningaspána í samstarfi við Kjarnann.
Vinsælasti flokkur landsins er sem fyrr Vinstri grænir. Stuðningur við flokk Katrínar Jakobsdóttur hefur hins vegar dalað undanfarna viku eða svo og er nú með stuðning 25,1 prósent kjósenda, miðað við 27 prósent stuðning í kosningaspánni 7. október. Á sama tíma virðist Sjálfstæðisflokkurinn hafa náð jafnvægi í um 23 prósent fylgi. Í nýjustu kosningaspánni er Sjálfstæðisflokkurinn með 22,2 prósent stuðning.
Viðreisn og Björt framtíð eru enn með lítið fylgi og eiga takmarkaða möguleika á að ná mönnum á þing. Viðreisn er með 3,8 prósent stuðning í kosningaspánni og Björt framtíð með 3,3 prósent.
Nýjustu vendingar í Viðreisn birtast hugsanlega ekki sterkt í þessum nýjustu tölum enda var nýjasta könnunin, sem er til grundvallar kosningaspánni, gerð á tveggja vikna tímabili, frá 29. september til 12. október. Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður flokksins, vék fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur miðvikudagskvöldið 11. október.
Það má segja að það hafi verið kominn tími fyrir Viðreisn til þess að bregðast við síminnkandi fylgi flokksins að undanförnu. Áhugavert verður að fylgjast með kosningaspám næstu daga og áhrifin sem formannsskiptin kunna hafa haft.
Framsóknarflokkurinn er enn í vandræðum með að afla fylgis. Allar götur síðan Miðflokkurinn varð til eftir klofning Sigmundar Davíðs og stuðningsmanna hans úr Framsóknarflokknum hefur fylgi Framsóknarmanna minnkað nær stöðugt. Flokkur Sigurðar Inga Jóhannssonar er nú með 6,4 prósent.
Lesa má í líkur framboðanna á þingmannafjölda í kosningamiðstöð Kjarnans hér. Þar má einnig sjá samanlagðan þingstyrk tveggja eða fleirri flokka sem gætu hugsanlega ímyndað sér að vinna saman í ríkisstjórn að kosningum loknum.