Alls segjast 45 prósent þeirra sem taka afstöðu vera fylgjandi því að Ísland taki aftur upp aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB) en 55 prósent eru því andvígir. Þetta kemur kemur fram í nýrri könnun sem Gallup vann fyrir Já Ísland.
Þar sést að stuðningur við það að aðildarviðræður verði teknar aftur upp hefur aukist frá því að sambærileg könnun var gerð í febrúar 2017, en hann er minni nú en hann var í upphafi árs 2016.
Hlutfall þeirra sem vilja taka aftur upp viðræður er aðeins hærra en þeirra sem myndu vilja ganga í sambandið ef kosið væru um það í dag, en Kjarninn greindi frá því á mánudag að 40,2 prósent Íslendinga væru fylgjandi aðild en 59,8 prósent á móti. Stuðningur við aðild hefur aukist umtalsvert frá því að hann var kannaður síðast í febrúar 2017, en þá sögðust 33,9 prósent vera fylgjandi aðild.
Viðræðum slitið 2014
Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu sumarið 2009. Þá sat að völdum ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, samsteypustjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Vorið 2013 tók ný ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, við. Þann 21. febrúar 2014 lagði Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, fram þingsályktunartillögu um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.
Líkt og í flestum Evróputengdum málefnum er mikill munur á afstöðu eftir kyni, aldri, búsetu, tekjum, menntun og stjórnmálaskoðunum gagnvart því hvort vilji sé til þess að hefja viðræður að nýju. Karlar eru mun viljugri til að taka upp viðræður á ný en konur og yngra fólk hefur meiri áhuga á því en þeir sem eldri eru. Þannig segjast sex af hverjum tíu sem tóku afstöðu í aldurshópnum 18-24 ára vera fylgjandi því að taka aftur upp aðildarviðræður en rúmlega sex af hverjum tíu landsmönnum sem eru yfir 55 ára eru því andvígir. Raunar eru fleiri á móti því að taka upp viðræður en fylgjandi í öllum aldurshópum nema þeim yngsta.
Mikill munur milli kjósenda flokka
Alls segjast 55 prósent þeirra sem eru með yfir eina milljón króna í fjölskyldutekjur og tóku afstöðu í könnuninni að þeir séu fylgjandi því að taka upp viðræður um aðild að nýju. Þá er áberandi mikill stuðningur við slíkt á meðal þeirra sem eru með háskólamenntun, en 59 prósent þeirra sem tóku afstöðu eru fylgjandi því. Tveir af hverjum þremur sem eru einungis með grunnskólapróf og tóku afstöðu í könnun Gallup eru hins vegar andvígir því að hefja viðræður að nýju.
Það kemur vart á óvart að nær allir sem segjast kjósa Samfylkinguna og Pírata eru fylgjandi því að taka upp viðræður að nýju en það vekur athygli að fleiri kjósendur Vinstri grænna eru fylgjandi því en á móti. Andstaðan við að hefja aðildarviðræður er mest á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins þar sem tæplega níu af hverjum tíu sem tóku afstöðu eru á móti því að hefja aðildarviðræður að nýju. Andstaðan er lítið eitt minni hjá kjósendum Framsóknarflokksins og þá eru kjósendur Flokks fólksins mun andvígari viðræðum en hlynnt.
Könnunin var unnin fyrir Já Ísland og var framkvæmd 11-24. september síðastliðinn. Um var að ræða netkönnun og úrtakið var 1.435 manns um allt land. Allir þátttakendur voru 18 ára og eldri og voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfall var 59,5 prósent.