Rannsóknarnefnd sem forseti Landspítala og rektor Háskóla Íslands skipuðu í fyrra til að rannsaka plastbarkamálið birtir skýrslu sína á mánudag á fundi í Norræna húsinu. Þetta kemur fram í pistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans.
Formaður nefndarinnar er dr. Páll Hreinsson dómari við EFTA-dómstólinn. Páll var áður dómari við Hæstarétt Íslands, formaður stjórnar Persónuverndar og prófessor við HÍ. Hann hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum á vettvangi hins opinbera, og var meðal annars formaður rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008.
Í nefndinni eiga einnig sæti María Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í geðlækningum við réttargeðdeildina í Dikemark í Noregi. Auk geðlæknisstarfa er María með BA-gráðu í heimspeki. Þá á Georg Bjarnason, krabbameinslæknir og vísindamaður við Sunnybrook-stofnunina í Toronto í Kanada, einnig sæti í nefndinni. Georg er virtur vísindamaður á sínu sviði á alþjóðavettvangi og hefur mikla reynslu af krabbameinslækningum og vísindarannsóknum þeim tengdum.
Siðanefnd í Svíþjóð komst að þeirri niðurstöðu og birti fyrir síðustu helgi að ítalski skurðlæknirinn Paolo Macchiarini hefði gerst sekur um vísindalegt misferli við rannsóknir sínar á plastbarkaígræðslum á mönnum.
Nefndin komst meðal annars að því að læknarnir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson, sem skráðir voru meðhöfundar að grein Macchiarinis um fyrstu plastbarkaaðgerðina, væru sekir um vísindalegt misferli eins og raunar allir meðhöfundar Macchiarinis.