Sala og dreifing fíkniefna hefur í auknum mæli færst á samfélagsmiðla. Afskipti lögreglu í formi frumkvæðislöggæslu er takmörkuð vegna manneklu. Þetta kemur fram í mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi árið 2017 sem kom út í október síðastliðinn.
Í matinu segir að hér sé um að ræða nýjan brotavettvang sem kallar á sérdeildir til þess að sinna net- og tölvubrotarannsóknum. Netrannsóknir og rannsóknir netglæpa krefjist sérhæfðra lögreglumanna og sérfræðinga en ekki hafi fengist fjárveitingar til þess að stofnsetja slíkar rannsóknardeildir.
Vísbendingar eru um að innflutningur sterkra fíkniefna á borð við kókaín færist í vöxt, samkvæmt matinu. Á síðustu misserum hefur aukist til muna það magn MDMA (Methylenedioxymethamphetamine) og kókaíns sem haldlagt hefur verið.
„Mikið af sterku amfetamíni er á markaðnum og orðið hefur vart við metamfetamín. Framboð á kannabis er sem fyrr mikið og mikill fjöldi ræktana sem gerður hefur verið upptækur er til marks um að innlend framleiðsla leitast við að anna eftirspurn,“ segir í matinu.
Höfundar skýrslunnar draga þá ályktun að gott efnahagsástand kunni að ráða einhverju um þær breytingar sem orðið hafa en jafnframt sé sú staðreynd augljós að fíkniefnamarkaðurinn á Íslandi hefur stækkað verulega á skömmum tíma. Við náttúrulega fjölgun þjóðarinnar bætist mikill fjöldi aðfluttra og ferðamanna. Spurn eftir fíkniefnum hafi að öllum líkindum aldrei verið meiri hér á landi.