Trúfélagið Zuism mun hefja endurgreiðslur á sóknargjöldum til meðlima félagsins upp úr miðjum nóvembermánuði. Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zuism, segir að umsóknarfrestur sé til 15. nóvember og stefnt sé að því að greiða tveimur dögum eftir að honum lýkur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá trúfélaginu.
,,Eftir langa bið og mikla baráttu er loksins komið að því að Zúistar geti fengið endurgreiðslu á sóknargjöldum. Meðlimum er einnig boðið að láta sóknargjöldin renna til góðgerðamála. Zuism hefur nú þegar styrkt Barnaspítala Hringsins um 1,1 milljón til tækjakaupa. Félagið styrkti einnig neyðarsjóð UNICEF með 300 þúsund króna framlagi í fyrradag og mun halda áfram að styrkja önnur góðgerðarmálefni á næstu misserum,“ segir Ágúst.
Hann segir jafnframt að Zuism sé eina trúfélag landsins sem leyfir sóknarbörnum að ráðstafa sínum sóknargjöldum. „Við hvetjum fólk til að skrá sig í félagið fyrir 1. desember því stefnt er að því að endurgreiðslur muni halda áfram á næsta ári.“
Miklar deilur hafa orðið í kringum trúfélagið og gaf fyrrum öldungaráð Zúista út yfirlýsingu í vikunni þar sem það harmaði þá stöðu sem nú er uppi í trúfélaginu Zuism og hvatti alla meðlimi til að skrá sig úr félaginu í síðasta lagi fyrir 1. desember.
„Við þökkum fylgjendum okkar fyrir þolinmæði og stuðning undanfarin ár en nú er því miður komið að leikslokum hjá okkur,“ segir í yfirlýsingu fyrrum öldungaráðs.