Milljónir punda úr einkabúi Englandsdrottningar hafa verið settar á reikning á Cayman-eyjum sem er hluti af aflandseignasafni sem aldrei hefur verið greint frá fyrr, samkvæmt skjölum sem litu dagsins ljós í rannsókn á skattaparadísum utan við landsteinana.
Þetta kemur fram í frétt The Guardian.
Skrár úr umfangsmiklum leka sýna í fyrsta sinn hvernig drottningin, fyrir milligöngu hertogadæmisins af Lancaster, hefur átt og á enn fjárfestingar í gegnum sjóði sem hafa sett fé í ýmiss konar fyrirtæki, þar á meðal keðjuna Threshers og sölufyrirtækið BrightHouse, sem hefur verið gagnrýnt fyrir að færa sér í nyt neyð þúsunda fátækra fjölskyldna og berskjaldaðs fólks.
Hertogadæmið viðurkenndi að hafa ekki haft neina hugmynd um 12 ára langa fjárfestingu sína í BrightHouse þar til blaðið The Guardian kom að máli við það ásamt öðrum samstarfsaðilum í alþjóðlegu verkefni sem nefnist Paradísar-skjölin.
Ísland smátt í Paradísarskjölum
Reykjavik Media fjallar um lekann og segir í frétt miðilsins að nöfn nokkurra tuga íslendinga sé að finna í þeim 13.4 milljónum skjala sem 96 fréttamiðlar í 67 löndum byrja að fjalla um í kvöld. Paradísarskjölin eins og þau eru kölluð veiti innsýn í skattaparadísir víða um heim um það hvernig efnað fólk og alþjóðleg stórfyrirtæki nýta sér glufur í kerfinu til borga minni skatta eða fela eignir sínar. „Skjölin koma innan úr lögfræðistofunni Appleby á Bermúda eyjum og innan úr Asiaciti sjóðnum í Singapúr. Í skjölunum eru einnig upplýsingar úr 19 fyrirtækjaskrám á þekktum lágskattasvæðum eins og Möltu, Bermúda og Cayman eyjum. Það var þýska blaðið Süddeutsche Zeitung sem komst yfir gögnin og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavik Media og 96 fjölmiðlum í 67 löndum,“ segir í frétt RM.
Einnig segir að ólíkt Panamaskjölunum sé Ísland smátt í þessum gagnaleka. Nöfn Íslendinga sé að finna í gögnunum frá Appleby og einnig í fyrirtækjaskrá Möltu. Ekki hafi fundist nöfn íslenskra stjórnmálamanna í gögnunum en þar sé hinsvegar að finna nöfn 126 stjórnmálamanna frá 47 löndum.
Af norðurlöndunum sé Ísland með fæstu nöfnin í gögnunum en Norðmenn flest eða um eitt þúsund. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV mun fjalla um nokkur íslensk nöfn sem fundust í gögnunum næstkomandi þriðjudag.