„Númer eitt, tvö og þrjú er að við þurfum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við gerum það meðal annars, og aðallega, með því að hætta að nota svona mikið jarðefnaeldsneyti.“ Þetta segir Vanda Úlfrún Lív Hellsing, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, í sjónvarpsþættinum Kjarnanum á Hringbraut í kvöld þar sem fjallað er um loftlagsmál og þær skuldbindingar sem Íslendingar hafa undirgengist í þeim málaflokki. Hinn gestur þáttarins er Birgir Þór Harðarson, sérfræðingur Kjarnans í umhverfis- og loftlagsmálum.
Nýleg skýrsla Hagfræðastofnunar Háskóla Íslands spáði því að losun myndi að óbreyttu aukast á Íslandi um að minnsta kosti 53 prósent frá því sem hún var árið 1990. Samkvæmt Parísarsamkomulaginu á hún að dragast sama um 40 prósent til 2030 og Ísland því órafjarri því að mæta markmiðum samkomulagsins.
Birgir Þór segir að það skorti á aðgerðir til að takast á við þetta: „Ein skýring gæti verið að ákvarðanir sem teknar eru í loftlagsmálum, árangurinn af þeim ákvörðunum sést ekki fyrr en í fjarlægri framtíð, eftir 20-30 ár[...]Þá er sá ráðherra eða sá þingmaður löngu hættur í pólitík. Kjörtímabilið er bara fjögur ár á Íslandi.“
Vanda segir að það sé ekki nóg að binda einungis kolefni, til dæmis með endurheimt votlendis. Íslendingum séu settar mjög fastar skorður í þeim alþjóðasamningum um loftlagsmál sem þeir eru aðilar að um hvað teljist binding og hversu mikið af henni megi nýta.
Vanda segir að Íslendingar þurfi að draga úr losun frá samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi og vegna meðferð úrgangs til að markmiðin náist.