EFTA-dómstóllinn í Lúxemborg hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska leyfisveitingakerfið fyrir innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins. Dómstóllinn telur að það sé ósamrýmanlegt fimmtu grein tilskipunarinnar að skilyrða innflutning á slíkum vörum. Hann felldi dóm í tveimur málum í morgun sem Eftirlitsstofnun EFTA höfðaði gegn íslenska ríkinu og voru sameinuð í málflutningi fyrir dómstólnum.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að dómurinn þýði að íslenskir neytendur fái meira úrval og meiri gæði. Hann fagnar niðurstöðunni og það gera Samtök verslunar og þjónustu einnig. Bændasamtök Íslands lýsa aftur á móti yfir áhyggjum sínum í fréttatilkynningu sem þau sendu frá sér í kjölfarið og telja niðurstöðuna geta valdið miklu tjóni.
Í tilkynningu dómstólsins segir að hann líti svo á að íslensk löggjöf feli í sér bann við innflutningi á hrárri kjötvöru, eggjum og mjólk. Hins vegar mæli löggjöfin fyrir um að innflutningur á slíkum vörum geti verið heimill að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Dómstóllinn taldi að þetta leyfisveitingakerfi fæli í sér eftirlit með dýraheilbrigði í skilningi tilskipunar Evrópusambandsins um dýraheilbrigðiseftirlit í viðskiptum innan bandalagsins, en hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Þetta kemur fram í frétt FA.
Gagnrýna tregðu stjórnvalda
Samtök verslunar og þjónustu sendu þann 6. desember 2011 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla. Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgang hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum og ýmsum mjólkurvörum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.
Samkvæmt SVÞ telja þau bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti feli í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið fram um að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafi stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.
SVÞ benda á að dómurinn er til samræmis við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í því tiltekna máli, frá því í nóvember 2016 þar sem eitt aðildarfélaga samtakanna lét reyna á umræddar takmarkanir. Íslenska ríkið áfrýjaði því máli til Hæstaréttar og má vænta dóms vorið 2018.
Í fréttatilkynningunni fagna Samtök verslunar og þjónustu niðurstöðu EFTA-dómstólsins sem er enn einn áfangasigur í baráttu samtakanna í máli þessu sem hófst með kvörtun SVÞ árið 2011. Að sama skapi gagnrýna SVÞ tregðu stjórnvalda að bregðast við rökstuddum og málefnalegum niðurstöðum dómstóla í málinu. Skora samtökin á stjórnvöld og nýtt þing að taka á málinu í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.
Meira úrval og meiri gæði
En hvað mun þetta þýða fyrir neytendur? Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir í samtali við Kjarnann að í fyrsta lagi þýði þessi dómur að íslenskir neytendur fái meira úrval og meiri gæði. Kjötinnflytjendur muni geta flutt inn gæðakjöt og ostar sem ekki hafa sést áður í íslenskum búðum muni koma á markað. Hann segir að samkeppni á sölu á ferskum eggjum muni aukast og innflutningur á lífrænum vörum, til að mynda eggjum og kjöti, muni aukast. Þetta ætti að stuðla að hagstæðara verði og meira úrvali.
Í framhaldi af dómi EFTA-dómstólsins í morgun hvetur Félag atvinnurekenda stjórnvöld til að hætta þegar í stað vísvitandi brotum á EES-samningnum og afnema bann við innflutningi á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk.
„Þessi niðurstaða EFTA-dómstólsins hefur verið fyrirséð lengi og kemur ekki á óvart. Þegar Alþingi ákvað á sínum tíma að viðhalda innflutningsbanni gagnvart ferskum búvörum var það að brjóta EES-samninginn vísvitandi,“ segir Ólafur. „Nú getur íslenska ríkið ekki lengur dregið lappirnar í þessu máli. Það þarf einfaldlega að afnema innflutningsbannið og leyfa innflutning á fersku kjöti, eggjum og mjólkurvörum úr ógerilsneyddri mjólk. Það er sjálfsagt að Ísland beiti sömu varúðarráðstöfunum til að hindra salmonellu- og kamfýlóbaktersmit og hin norrænu ríkin gera. Til þess að það megi verða, þarf að vinna undirbúningsvinnu sem íslensk stjórnvöld hefðu átt að vera byrjuð á fyrir löngu og er ámælisvert að hefur ekki verið gert, í ljósi þess að lengi hefur legið fyrir hvernig niðurstaðan yrði í þessum dómsmálum. Það hlýtur að verða eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar að gera gangskör að því að Ísland uppfylli samningsskuldbindingar sínar í þessum efnum.“
Niðurstaðan getur valdið miklu tjóni
Bændasamtök Íslands telja niðurstöðuna geta valdið miklu tjóni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu samtakanna. Þar segir að um sé að ræða þýðingarmikið hagsmunamál íslensks landbúnaðar en fjölmargir hafi bent á þá áhættu sem felst í auknum innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og hráum eggjum. Þrátt fyrir mótrök fjölda aðila úr heilbrigðisgeiranum, bænda og búvísindamanna og fleiri sem vara við óheftum innflutningi þá komist EFTA-dómstóllinn að annarri niðurstöðu.
„Bændasamtök Íslands harma niðurstöðu dómstólsins en þau hafa um árabil barist gegn innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og hráum eggjum. Að mati samtakanna mun niðurstaða dómsins að óbreyttu geta valdið íslenskum landbúnaði miklu tjóni og ógnað bæði lýðheilsu og búfjárheilsu. Ísland er ekki aðili að evrópskum tryggingarsjóðum sem bæta tjón ef upp koma alvarlegar sýkingar í landbúnaði og þyrfti ríkisvaldið ásamt bændum að bera slíkar byrðar,“ segir í tilkynningunni.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir dóminn valda vonbrigðum en bændur muni ekki gefast upp. „Við höfum barist í þessum málum um árabil og erum núna að skoða næstu skref í samvinnu við okkar lögfræðinga og ráðgjafa. Hvað sem öðru líður þá munum við áfram verja okkar stöðu sem er einstök. Það hefur komið skýrt fram í umræðu um þessi mál að okkar færustu vísindamenn í sýklafræði og bæði manna- og búfjársjúkdómum hafa varað sterklega við innflutningi á hráu kjöti og öðrum þeim vörum sem geta borið með sér smit. Við eigum hreina og heilbrigða búfjárstofna og erum heppin að því leyti að matvælasýkingar eru fátíðar hérlendis. Það er beinlínis skylda okkar að viðhalda þeirri góðu stöðu,“ segir Sindri.
Íslenska ríkinu ber að breyta lögum
Í fréttatilkynningu frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu segir að í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og í reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins sé kveðið á um leyfisveitingakerfi fyrir innflutningi á hráum kjötvörum, hráum eggjum og eggjavörum og vörum úr þeim og ógerilsneyddri mjólk.
Íslensk stjórnvöld hafi verið þeirrar skoðunar að leyfisveitingakerfið samræmdist EES-samningnum og hafi þeim sjónarmiðum verið haldið uppi í málsvörnum íslenska ríkisins. EFTA-dómstóllinn komst hins vegar að annarri niðurstöðu.
Einnig segir í tilkynningunni að rétt sé að taka fram að þessi dómur fjallar ekki um það magn sem flutt er inn af kjöti, eggjum og mjólk til landsins, eingöngu það heilbrigðiseftirlit sem viðhaft er við innflutning á þessum vörum.
„Ljóst er að fram til þessa hafa íslensk stjórnvöld brotið gegn EES samningum og þurfa nú að gera sitt ítrasta á þessu sviði til að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Samkvæmt samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls skulu hlutaðeigandi EFTA-ríki gera nauðsynlegar ráðstafanir til að framfylgja dómum EFTA-dómstólsins. Íslenska ríkinu ber samkvæmt þessu að breyta lögum og reglum til samræmis við niðurstöðu dómsins. Íslensk stjórnvöld munu vinna að því að heimildir EES-samningsins um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum verði nýttar, til dæmis varðandi salmonellu. Þessu tengdu verður áfram unnið að úrvinnslu á tillögum starfshóps um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.