Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis lífeyrissjóðs, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að það hafi verið mat sjóðsins, að það verð sem fékkst fyrir hlut sjóðsins í Bakkavör hafi endurspeglað virði hans, miðað við þær forsendur sem lágu fyrir á þeim tíma.
Bakkavör verður skráð á markað í London á morgun en virði félagsins er nú 1.043 milljónir punda, eða sem nemur 143 milljörðum króna.
Það er meira en þrefalt virði félagsins á þeim tíma þegar bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir keyptu hlutina af Arion banka og íslenskum lífeyrissjóðum. Þá var verðmiðinn um 319 milljónir punda, eða sem nemur um 43 milljörðum króna. „Gildi var meðal hluthafa í BG12 slhf. sem seldi sinn hlut í Bakkavör í byrjun árs 2016. Eins og fram kom á ársfundi sjóðsins þann 26. apríl síðastliðinn nam innlausn Gildis í BG12 um 2,8 milljörðum króna á árinu 2016 í kjölfar sölu félagsins á um 46% eignarhlut í Bakkavör. Það voru ýmsir möguleikar skoðaðir á sínum tíma, þ.m.t. að halda lengur á eigninni og að skrá félagið á markað. Niðurstaðan var hins vegar að hlutur BG12 í Bakkavör var settur í opið söluferli í umsjón breska bankans Barclays. Það var okkar mat að niðurstaða þess ferlis endurspeglaði virði félagsins á þeim tíma,“ segir Davíð í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Fleiri lífeyrissjóðir voru hluthafar í BG12 slhf., meðal annar Lífeyrissjóður verslunarmanna og
Forsvarmenn Arion banka svöruðu því einnig til, þegar Kjarninn beindi spurningum til bankans varðandi viðskiptin með hluti í Bakkavör, að það hafi verið mat bankans að verðið væri ásættanlegt.
Óhætt er að segja Ágúst og Lýður hafi hagnast vel á skömmum tíma með eignarhlutina í Bakkavör, en þeir stofnuðu félagið fyrir 31 ári síðan og halda nú um stjórnartaumana ásamt Baupost Group.
Undanfarin ár hafa einkennst af miklum átökum um eignarhaldið, en Ágúst og Lýður hafa komið vel út úr þessum viðskiptum og deilum.
Þeir nýttu meðal annars fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands til að fá hagstætt gengi á fjármuni, sem síðan voru nýttir til þess, meðal annars, að kaupa hlutabréf í Bakkavör af íslenskum lífeyrissjóðum.
Þá teygir viðskiptaveldi þeirra til fjölda félaga í skattaskjólum, og komu fram upplýsingar um þau í Panamaskjölunum.
Í ársskýrslu Bakkavarar fyrir árið 2016 er staða félagsins sögð góð en heildartekjur félagsins námu 1,7 milljörðum punda, eða sem nemur um 232,9 milljörðum króna. Árið 2015 námu tekjurnar 1,64 milljörðum punda, eða um 224,7 milljörðum króna, og nam vöxturinn milli ára 3,6 prósentum.
Félagið hyggur á frekari landvinninga utan heimamarkaðarins í Bretlandi, bæði í Bandaríkjunum og Kína, en þar hefur starfsemi félagsins farið vaxandi að undanförnu, að því er segir í skýrslunni.