„Í gær varð gríðarlega alvarleg bilun í kerfum 1984 og því miður algert kerfishrun,“ er ritað á vef hýsingarþjónustunnar 1984 í dag sem hýsir íslenskar vefsíður.
Á Facebook-síðunni Forritarar á Íslandi er bent á að þjónusta fyrirtækisins hafi legið niðri í hátt í sólarhring. Mörður Ingólfsson, forsvarsmaður 1984, skrifar þar í athugasemd: „Við sátum í 11 klst. með 7 manns niðri í Nýherja, allir helstu sérfræðingar landsins í storage og öryggismálum og horfðum á vélarnar okkar deyja. Það hefur enginn séð svona áður.“
Það er þess vegna greinilegt að um alvarlega bilun er að ræða. Ekki hefur náðst í 1984 í síma en símstöð fyrirtækisins var einn þeirra þjóna sem varð illa úti í „tortímingunni“ í gær.
Nú er unnið að viðgerðum og reynt að endurheimta þau gögn sem hurfu í kerfishruninu.
Við erum í þessum töluðum orðum að enduruppsetja bæði tölvupóst og vefsvæði í samræmi við neyðaráætlun. Við biðjum viðskiptavini um að vera þolinmóða og biðjumst velvirðingar á óþægindunum.
— 1984ehf (@1984ehf) November 16, 2017
„Þeir viðskiptavinir sem eru í venjulegri hýsingu fá vef sína og tölvupóst enduruppsettan úr afritum og við reynum að bjarga gögnum annarra viðskiptavina ef hægt er,“ skrifar 1984 á vefinn. „Við biðjum viðskiptavini að sýna okkur þolinmæði á þessum erfiða tíma.“