Einhverjar breytingar eru nú að eiga sér stað í Öræfajökli og sést töluverð sprungumyndun nokkuð vel á gervitunglamyndum Geimvísindastofnunar Evrópu, ESA. Breyting er þó nokkur milli 8. og 20. nóvember, og sprungumyndun augljós.
Jarðhræringa hefur gætt í Öræfajökli í auknum mæli á undanförnum vikum og hefur myndast sigketill í jöklinum miðjum. Þá hefur brennisteinslyktar gætt í og við Kvíá, sem gengur undan einum skriðjökli Öræfajökuls, Kvíárjökli.
Vegna þessa hafa vísindamenn, í samstarfi við Almannavarnir, hækkað viðbúnaðarstig í nágrenni jökulsins í óvissustig. Hafin er vinna við að kortleggja rýmingar á svæðinu og nákvæmari mælitækjum er komið fyrir.
„Ratsjármyndir úr SENTINEL-1 gervitungli ESA. Í lok október voru engar sprungur í miðri öskju Öræfajökuls, þann 8.11. má greina talsvert sprungumynstur sem enn hefur aukist nú í morgun, 20.11. Þess má geta að ratsjármyndir sýna aðallega yfirborðshrjúfleika, og þarf smá lagni við túlkun þeirra. Myndirnar hafa ekki verið hnitsettar m.t.t. landslags, en eru settar fram nú til að auðvelda samanburð og sýna þróun,“ segir á Facebook síðu sem ber heitið eldfjallafræði og náttúrvárhópur innan Háskóla Íslands.
Aðeins eldfjallið Etna á Sikiley situr á stærri eldstöð í Evrópu. Óvissustigi almannavarna er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.