Undanfarna 6 daga hafa rúmlega 800 konur, sem eru og hafa verið virkar í stjórnmálum á Íslandi, rætt saman og deilt reynslusögum í lokaða Facebook hópnum „Í skuggavaldsins“, um kynjað starfsumhverfi stjórnmálanna.
136 sögur hafa nú verið birtar opinberlega en konurnar koma úr öllum flokkum, eru á ýmsum aldri, hafa starfað á flestum sviðum stjórnmálanna, á ýmsum tímum og um allt land. Segir í tilkynningu frá forsvarsmönnum hópsins að einstakur samhljómur og samstaða hafi einkennt umræður í hópnum. Fjölbreyttar sögur kvennanna dragi upp sláandi mynd af þeim karllæga heimi sem stjórnmálin eru – sögur um kynbundið ofbeldi, áreitni, valdbeitingu og þöggun.
Var á barnum. Formaðurinn þáverandi kom aftan að mér, strauk rassinn á mér. Ég brosti og gekk í burtu- hann elti mig að salerninu og spurði hvort hann ætti ekki að koma inn. Ég hló var vandræðaleg en sagði nei. Þetta var ekki í fyrsta né síðasta skiptið sem þetta gerðist.
Í sameiginlegri áskorun hópsins, sem var undirrituð af á fimmta hundrað stjórnmálakonum, er þess krafist að karlar taki ábyrgð og að stjórnmálaflokkarnir taki af festu á málinu. Þess er krafist að flokkarnir og starfsstaðir stjórnmálafólks setji sér viðbragðsreglur og lofi konum því að þær þurfi ekki að þegja og að þær muni fá stuðning.
Í tilkynningunni segir jafnframt að það hafi verið ánægjulegt að fylgjast með þeim jákvæðum viðbrögðum sem umræðan og áskorun hópsins hefur þegar kallað fram, en mikill einhugur ríki meðal kvenna í hópnum, um að fylgja málinu fast eftir á komandi misserum. Nú sé tími breytinga runninn upp.
Ég get ekki talið upp öll þau skipti sem mér hefur beint og óbeint verið hótað nauðgun vegna skoðana minna. Ég hef engan áhuga á að hafa það eftir, en ég hef oft lesið um allskonar hluti sem ég hefði gott af og hvernig væri nú best að þagga niður í mér.
Til að halda umræðunni áfram, og fagna þeim áfanga samstöðunnar sem þegar hefur náðst, munu konur úr hópnum hittast víða um land, síðdegis í dag.
Hægt er að lesa þær 136 sögur sem hafa verið birtar í hópnum, ásamt áskoruninni sem á fimmta hundað stórnmálakonur hafa undirritað.