Óvissustig er enn í gildi vegna aukinnar virkni í Öræfajökli síðustu daga. „Við förum ekki á gult stig nema það sé eitthvað mikið að gerast,“ segir Kristín Jónsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í viðtali við Morgunblaðið í dag.
Kemur þar fram að Veðurstofan sé með Öræfajökul „í gjörgæslu“ og fylgjast vísindamenn náið með hverju skrefi sem verður í þróun jarðhræringa í þessari næststærstu eldstöð Evrópu.
Ólafur G. Flóvenz, jarðeðlisfræðingur og forstjóri ÍSOR, sagði fyrir helgi að eldsumbrot væru í raun hafin í Öræfajökli og líklegast að kvikan væri komin mjög nálægt yfirborði. Þetta kom fram í viðtali Stöðvar 2 við hann.
Hann bæti þó við að óvissan væri mikil og það ætti eftir að skýrast hvernig þróunin yrði.
Aðeins eldfjallið Etna á Sikiley situr á stærri eldstöð í Evrópu. Óvissustigi almannavarna er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.
Fjallað var ítarlega um Öræfarjökulseldstöðina á vef Kjarnans þegar óvissustigi var lýst yfir.
Öræfajökull stendur syðst í Vatnajökli milli Skeiðarársands og Jökulsárlóns, svo nefnd séu kunnug kennileiti í nágrenninu. Í Öræfajökli er einnig Hvannadalshnjúkur, hæsta fjall Íslands.
Tvisvar hefur gosið í Öræfajökli á sögulegum tíma, árin 1362 og árið 1727. Fyrra gosið var stórgos þar sem öll byggð næst jöklinum lagðist í eyði. Nafn svæðisins hvarf með byggðinni, en áður hafði svæðið kallast Litla-Hérað. Öræfajökull kallaðist einnig Hnappafellsjökull, eftir hnöppunum á jöklinum sem rísa rúmlega 1.800 metra yfir sjávarmáli, fyrir gosið.
Heimildir um gosið 1362 eru fremur fátæklegar en sagnir um eldsumbrotin eru að finna í annálum frá ofanverðri 14. öld. Í Gottskálksannál segir til dæmis:
„Í Austfjörðum sprakk í sundur Knappafellsjökull og hljóp ofan á Lómagnúpssand, svo að af tók vegu alla. Á sú í Austfjörðum, er Úlfarsá heitir, hljóp á stað þann er heitir að Rauðalæk, og braut niður allan staðinn, svo að ekki hús eftir nema kirkjan.“
Gosið var heilmikið og þeytti upp um 10 rúmkílómetrum af gjósku. Sævar Helgi Bragason hefur fjallað um gosið á Stjörnufræðivefnum. Þar segir meðal annars að þetta hafi verið mesta vikurgos sem orðið hefur á Íslandi síðan í Heklugosi 800 árum fyrir Kristsburð. Eldsumbrotunum fylgdu jökulhlaup undan mörgum skriðjöklunum sem renna niður eftir öskjubarminum utanverðum; Falljökli, Virkisjökli, Kotárjökli, Rótarfjallsjökli og Svínafellsjökli niður Skeiðarársand. Hlaup úr Kvíárjökli (þar sem í dag má nema brennisteinslykt) rann út á sjó.