Þórhallur Arason, stjórnarformaður Lindarhvols, dótturfélags íslenska ríkisins sem tók við eignum frá slitabúum föllnu bankanna, telur að lög um opinber innkaup hafi ekki verið brotin þegar félagið gerði samning við lögmannsstofuna Íslög, sem Steinar Þór Guðgeirsson hrl. á, á vormánuðum í fyrra.
Hann segir að þrátt fyrir að lög um opinber innkaup geri ráð fyrir að bjóða eigi út þjónustu sem sé yfir rúmlega 15 milljónum króna, þá hafi samningurinn milli Lindarhvols og Íslaga verið gerður á gildistíma eldri laga, en ný lög tóku gildi nokkrum mánuðum eftir að samningurinn var gerður milli Lindarhvols og Íslaga.
Lögin tóku gildi í október 2016, en samingurinn var gerður í apríl, samkvæmt svari Þórhalls við fyrirspurn Kjarnans.
Fyrirspurnin til Þórhalls, vegna fyrrnefndra atriða, var eftirfarandi: Í ljósi þess að lögin sem starfsemi Lindarhvols byggir á, taka mið af því að stjórnsýslulögin gildi um félagið, hefði þá ekki þurft að bjóða út þjónustuna sem samið var um við Íslög? 40 milljónir er töluvert fyrir ofan viðmiðið um útboð (rúmlega 15).
Svarið frá Þórhalli, vegna þessarar fyrirspurnar var eftirfarandi: „Samningurinn var gerður á gildistíma eldri laga um opinber innkaup en ný lög tóku gildi í lok október 2016. Lögin byggjast á Evróputilskipun um sama efni og þegar kom að kaupum á þjónustu hafði það þýðingu fyrir fyrirkomulag opinberra innkaupa hvort þjónustan sem keypt var taldist vera "A"- eða "B"-þjónusta. Skv. 21 gr. þágildanda laga voru innkaup á B-þjónustu ekki útboðsskyld og var kaup á lögfræðiráðgjöf skilgreind sem B-þjónusta,“ sagði í svarinu.
Eins og greint hefur verið frá, og fram kom í ársreikningi Lindarhvols fyrir árið í fyrra, þá fékk lögmannsstofan Íslög 40 milljónir króna á átta mánaða tímabili í fyrra, eða um 5 milljónir króna á mánuði, fyrir að sinna þjónustu sem Lindarhvoll keypti.
Steinar Þór var með prókúru fyrir Lindarhvol, en að sögn Þórhalls fékk hann ekki prókúru hjá félaginu fyrr en eftir að samningurinn milli Lindarhvols og Íslaga var gerður.
Hefur Þórhallur svarað því til, að samningurinn við Íslög hafi verið gerður til að tryggja „samfellu“ við vinnu sem snýr að umsýslu eigna sem komu í fang ríkisins eftir fall bankanna. Fyrst til Seðlabanka Íslands, og síðan til ríkisins.
Sveinn Arason Ríkisendurskoðandi lýsti sig vanhæfan til að endurskoða ársreikning Lindarhvols. Félagið var stofnað 15. apríl í fyrra og heldur á tugmilljarða eignum fyrir hönd ríkisins.
Ástæðan fyrir því að Sveinn annaðist ekki endurskoðun ársreikninga Lindarhvols var sú að bróðir hans, fyrrnefndur Þórhallur, er stjórnarformaður Lindarhvols, eins og áður sagði.
Vinnan við endurskoðun ársreiknings félagsins tafðist nokkuð vegna þessa, en Sigurður Þórðarson, fyrrverandi Ríkisendurskoðandi, var fenginn í það að annast endurskoðun ársreikningsins.
Í fang ríkisins, eftir uppgjör slitabúa föllnu bankanna, komu eignir upp á 384,3 milljarða króna, mest munaði þar um 95 prósent eignarhlut í Íslandsbanka og veðskuldabréf og afkomuskiptasamning vegna Arion banka, upp á samtals ríflega 105 milljarða króna.
Aðrar eignir, þar á meðal hlutafjáreignir, lán og aðrar eignir, nema tæplega 100 milljörðum króna. Allt laust fé sem borist hefur félaginu rennur inn á reikning félagsins hjá Seðlabanka Íslands, samkvæmt greinargerð sem skilað var til Alþingis.
Í greinargerðinni segir að samtals hafi um 140 milljarðar króna runnið inn á reikninginn í Seðlabankanum frá því árið 2016. „Frá því í febrúar 2017 og fram til ágústloka hafa greiðslur inn á stöðugleikareikninginn numið 56.448 milljónum króna. Staðan á reikningnum þann 3. febrúar var 6.641 milljón króna. Alls hefur 58.700 milljónum verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda á tímabilinu, skuldabréf sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands var greitt upp að fullu en eftirstöðvar þess námu 28,5 ma.kr. Þá voru um 30 ma.kr. ráðstafað til uppkaupa á skuldabréfaflokknum RIKH 18 sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar fjármálastofnana. Samandregið frá því að framsal stöðugleikaeignanna átti sér stað í upphafi árs 2016 og til og með 25. ágúst 2017 hafa greiðslur inn á stöðugleikareikninginn ásamt greiðslum inn á reikninga dótturfélaga numið samtals ríflega 140 milljörðum króna. Þar af var 17 milljörðum króna ráðstafað til ríkissjóðs til að mæta töpuðum bankaskatti og um 120 milljörðum króna hefur verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda,“ segir í greinargerðinni.