„Til mikillar óhamingju virðist sem þessi bólusetning gegn nasisma sé nú farin að missa áhrifamátt sinn eins og sjá má með upprisu nýnasisma á ýmsum stöðum í Evrópu.“
Þetta segir Anton Vasiliev, sendiherra Rússlands á Íslandi, í inngangsorðum nýrrar bókar, Föðurlandsstríðið mikla og María Mitrofanova, eftir G. Jökul Gíslason.
Í bókinni er fjallað um Föðurlandsstríðið mikla, sem hófst með innrás Þjóðverja 1941, en lauk ekki fyrr en 1.418 dögum síðar, 9. maí 1945, með sigri Rússa. María Mitrofanova, sem er á tíræðisaldri og býr í Breiðholti, barðist í stríðinu, og er saga hennar rakin í bókinni, innan um og saman við hina blóði drifnu sögu vígvalla Föðurlandsstríðsins.
Vasiliev segir í inngangsorðum sínum að það sé mikilvægt, ekki síst nú á tímum, að upplýsa fólk um söguna og stríðstímann. „Eftir seinni heimsstyrjöldina virtist sem Evrópa, Bandaríkin og heimurinn allur hefðu dregið lærdóm af ófriðinum. En til mikillar óhamingju virðist sem þessi bólusetning gegn nasisma sé nú farin að missa áhrifamátt sinn eins og sjá má með upprisu ný-nasisma á ýmsum stöðum í Evrópu. Þar dafnar nasistaáróður blygðunarlaust á ný. Þar verða minnismerki til heiðurs hermönnum Rauða hersins, sem fórnuðu lífi sínu til að frelsa fanga útrýmingarbúða og hersetnar þjóðir undan oki nasista, fyrir skemmdarverkum. Það er ekki aðeins móðgun við milljónir fórnarlamba stríðsins, heldur ógnar það grundvallarsjónarmiðum lýðræðis og mannréttinda. Það er sameiginleg skylda okkar allra að sjá til þess að nýjar kynslóðir gleymi ekki þessu hræðilega stríði, né heldur þeim sem björguðu heiminum og hinum sem vildu drottna yfir honum með valdi. Sumir af hermönnum okkar eru enn á lífi og geta enn deilt með okkur reynslu sinni. Saga Maríu Alexandrovnu Mitrofanovu, einu konunni sem var hermaður í Föðurlandsstríðinu mikla og býr á Íslandi, er því afar mikilvæg,“ segir Vasiliev.
Hörmungarnar sem fylgdu stríðinu á austurvígsstöðunum voru gríðarlegar. Samtals létust 26 milljónir manna í Föðurlandsstríðinu þegar yfir lauk.
Vasiliev segir í inngangsorðum sínum að enn í dag veiti hetjudáð og óeigingirni hermanna fólki styr og hvatningu, en ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af því að áhrifin séu að dofna eftir því sem lengra líður frá atburðunum. „Nasistarnir töldu sig þurfa sex vikur til að leggja Sovétríkin undir sig. En hvorki vikur, mánuðir eða fjögur löng ár dugðu þeim. Það var á austurvígstöðvunum sem óvinurinn missti 73% af herstyrk sínum. Stríðið kostaði landið okkar 26 milljónir mannslífa. Um 13,5% af íbúum landsins fyrir stríð féll. Innrásarherinn lagði einnig í rúst 1.710 borgir, um 70 þúsund þorp og bæi og eyðilagði ómetanleg menningarverðmæti. Föðurlandsstríðið mikla var hápunktur hugrekkis, hetjudáða og óeigingirni. Enn í dag veitir það okkur styrk og hvatningu þegar við hugsum til þessara tíma. Stríðið mótaði manngerð heillar kynslóðar og sigurinn hvatti þetta fólk til frekari dáða. Við munum alltaf vera í skuld við þá hermenn sem mynduðu bandalag gegn Hitler og þá sem sigruðust á fasismanum. Saga skipalestanna sem hættu sér Norður-Íshafsleiðina er hluti af sögu samskipta Rússlands og Íslands. Ísland varð ómetanleg útstöð. Í Hvalfirði, við Reykjavík og í Seyðisfirði söfnuðust saman enskar og bandarískar skipalestir sem sigldu til Rússlands í stríðinu. Rússar minnast hugrekkis þeirra sjómanna sem sigldu í þessum skipalestum og þeirra sem fórnuðu lífi sínu á altari sigursins,“ segir í Vasiliev í inngangsorðunum.