Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar ekki að gera kröfu um að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segi af sér vegna Landsréttarmálsins. Hún segist ekki hafa gert kröfu um afsögn Sigríðar í umræðum um málið á þingi í vor og það geri hún heldur ekki núna. Katrín segist hins vegar taka niðurstöðu Hæstaréttar mjög alvarlega.
Þetta kemur fram í svari hennar við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Hæstiréttur birti í gær niðurstöðu sína í máli sem tveir umsækjendur um stöðu Landsréttardómara höfðu höfðað gegn íslenska ríkinu. Í dómnum kemur fram að Sigríður hafi brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún vék frá hæfnismati dómnefndar um skipun 15 dómara í Landsrétt.
Í dómi hans segir enn fremur að Sigríður hafi að lágmarki átt að gera samanburð á hæfni annars vegar fjögurra umsækjenda sem dómnefndin hafði metið á meðal 15 hæfustu en Sigríður ákvað að gera ekki tillögu um að yrðu skipaðir, og þeirra fjögurra sem hún ákvað frekar að skipa. Það hafi hún ekki gert og gögn málsins bentu ekki til þess að nein slík rannsókn hefði farið fram af hálfu Sigríðar.
Í dómnum segir: „Samkvæmt því hefði málsmeðferð hans verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga og af því leiddi að það sama ætti við um meðferð Alþingis á tillögu ráðherra þar sem ekki hefði verið bætt úr þeim annmörkum sem málsmeðferð ráðherra var haldin.“
Aðstoðarmaður Sigríðar sagði í gær í svari við fyrirspurn Kjarnans að dómsmálaráðherra myndi ekki segja af sér embætti í kjölfar dóms Hæstaréttar.
Katrín, sem þá sat í stjórnarandstöðu, gagnrýndi málsmeðferðina mjög í vor þegar hún var til umræðu á Alþingi. Þá flutti hún meðal annars álit minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í málinu.
Í dag er hún forsætisráðherra í ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þar sem Sigríður Á. Andersen er dómsmálaráðherra.
Hún telur að það verði að gaumgæfa niðurstöðuna. „Það er fullt tilefni til þess að Alþingi endurskoði gildandi ákvæði laga um skipan dómara og skýri málsmeðferðarreglur og heimildir ráðherra til að víkja frá áliti dómnefndar sem eru í gildandi lögum. Við eigum að læra af þessari niðurstöðu til að svona mál endurtaki sig ekki.“
Kjarninn birti ítarlega fréttaskýringu um málið í gær. Hana má lesa hér.