Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, var í dag dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir umboðssvik í Stím-málinu. Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá bankanum var dæmdur í tveggja ára fangelsi og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi bankastjóri Saga Capital, var dæmdur í átján mánaða fangelsi. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Lárus, Jóhannes og Þorvaldur voru ákærðir vegna lánveitinga sem Glitnir veitti Stími til að kaupa hlutafé í bankanum, en hlutabréfakaup Stíms í Glitni og FL Group námu tæpum 25 milljörðum króna. Kaupin voru að stórum hluta fjármögnuð með láni frá Glitni og hlutabréfin sjálf voru eina veðið.
Lárus sætti ákæru í tveimur liðum ákærunnar en þeir Jóhannes og Þorvaldur í þeim þriðja. Allir neituðu sök. Lárus og Jóhannes voru báðir dæmdir fyrir umboðssvik og Þorvaldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum.
Mennirnir þrír hlutu sömu dóma í héraðsdómi fyrir nákvæmlega tveimur árum síðan, þann 21. desember 2015. Í sumar vísaði Hæstiréttur málinu aftur til héraðsdóms og ómerkti um leið fyrri dóm í málinu. Ástæðan var vanhæfi dómara, Sigríðar Hjaltested. Því þurfti að endurflytja málið í héraði.
Keypti hlutabréf í Glitni
Málið snýst annars vegar um tugmilljarða króna lánveitingar til félagsins Stím ehf., í nóvember 2007 og janúar 2008. Stím var búið til af starfsmönnum Glitnis í þeim tilgangi að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum og stærsta eiganda hans, FL Group, sem bankinn sat uppi með á veltubók sinni. Enginn markaður var fyrir bréfin á því verði sem Stím greiddi fyrir þau.
Lýstar kröfur í bú Stím þegar það fór á hausinn voru rúmlega 24 milljarðar króna. 0,06 prósent fékkst upp í kröfurnar. Ljóst er að fjártjón lánveitenda, Glitnis, var því gríðarlegt. Lárus Welding var ákærður fyrir umboðssvik í tveimur liðum vegna lánveitinganna sem áttu sér stað í nóvember 2007 og í janúar 2008, en hann var forstjóri Glitnis á þeim tíma.
Tapáhætta færð af Sögu
Hins vegar snýst málið um kaup fagfjárfestasjóðsins GLB FX á víkjandi skuldabréfi af Saga Capital í ágúst 2008. Saga hafði lánað Stím milljarð króna en þegar ljóst varð að Stím var komið með neikvætt eigið fé setti, samkvæmt ákæru, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, þáverandi forstjóri og eigandi í Sögu Capital, mikinn þrýsting á Glitni að kaupa af sér skuldabréfið. Það var loks gert í ágúst 2008, skömmu fyrir bankahrun, og öll upphæðin auk vaxta endurgreidd til Sögu Capital. Hún nam um 1,2 milljarði króna.
Kaupandinn var umræddur sjóður, GLB FX. Með því var tap vegna Stím fært af Sögu Capital yfir á þá sem áttu hlutdeild í sjóðnum. Þar á meðal voru íslenskir lífeyrissjóðir. Jóhannes Baldursson var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis á þessum tíma og tók, samkvæmt ákæru, ákvarðanir um að kaupa hið verðlitla skuldabréf á fullu verði. Hann var ákærður fyrir umboðssvik. Þorvaldur Lúðvík var síðan ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum.