Hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóðs hækkar úr 500.000 krónum í 520.000 krónur. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur undirritað reglugerð, um breytingu á reglugerð, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Þetta kemur fram í frétt Fæðingarorlofssjóðs í dag.
Samkvæmt reglugerðinni öðlast eftirfarandi breytingar gildi 1. janúar 2018 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2018 eða síðar.
Lágmarksgreiðsla fyrir 25 til 49 prósent starf hækkar úr 118.335 krónum í 123.897 krónur og fyrir 50 til 100 prósent starf hækkar úr 164.003 krónum í 171.711 krónur.
Fæðingarstyrkur hækkar einnig
Fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25 prósent starfi hækkar úr 71.563 krónum í 74.926 krónur og fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi hækkar úr 164.003 krónum í 171.711 krónur.
Eldri fjárhæðir gilda áfram vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 15. október 2016 til 31. desember 2017 sem og fyrir 15. október 2016.
Færri feður taka fæðingarorlof en áður
Kjarninn greindi frá því í apríl síðastliðnum að þeim feðrum sem taka fæðingarorlof með börnunum sínum hafi haldið áfram að fækka í fyrra, samkvæmt tölum frá Fæðingarorlofssjóði. Færri feður taka fæðingarorlof en áður, og þeir sem taka orlof gera það í færri daga en áður.
Flestir sem að fæðingarorlofsmálum koma eru sammála um það að ákvörðun stjórnvalda um að skerða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verulega eftir hrun hafi haft mikil áhrif, sérstaklega á töku feðra á fæðingarorlofi. Meðal annars hefur Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, sagt að þetta einstaka kerfi, sem búið var að byggja upp á Íslandi hvað varðar fæðingarorlof karla, sé að molna niður fyrir framan okkur.
Taka minna fæðingarorlof en þeir eiga rétt á
Frá því að farið var að skerða hámarksgreiðslur úr sjóðnum eftir hrun hefur hlutfall þeirra karla sem taka fæðingarorlof farið úr 90 prósentum, árið 2008, í 74 prósent árið 2016. Hlutfallið í fæðingarorlofi feðra hefur ekki verið lægra á þessu tímabili en árið 2016, og það hefur lækkað hratt á milli ára. Árið 2015 nýttu 80 prósent feðra fæðingarorlof sem þeir áttu rétt á að einhverju leyti.
Að sama skapi taka feður sífellt færri daga í fæðingarorlofi, en árið 2016 tóku feður að meðaltali 75 daga í fæðingarorlof, en árið 2015 var meðaltalið 84 dagar, og fyrir hrun var það 101 dagur að meðaltali. Eingöngu ellefu prósent feðra taka meira en þá þrjá mánuði sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum, en þetta hlutfall var komið í 23 prósent árið 2008. Helmingur feðra sem taka fæðingarorlof taka minna en þeir eiga rétt á, en hlutfallið hefur aldrei verið hærra. Árið 2008 tóku aðeins 22 prósent feðra styttra orlof en þrjá mánuði.