Fjárfestirinn Peter Thiel, sem er meðal þekktustu tæknifjárfesta heimsins, hefur fjárfest fyrir mörg hundruð milljónir Bandaríkjadala í Bitcoin að undanförnu. Frá þessi greinir Wall Street Journal, en Thiel veðjar á að Bitcoin muni festa sig í sessi og hækka í verði eftir því sem tíminn líður.
Fjárfestingarnar hafa farið fram í gegnum sjóði fyrirtækisins Founders Fund sem Thiel stýrir, og voru meðal stærstu fjárfestingana um mitt síðasta ár. Gríðarleg hækkun á virði Bitcoin var meðal stærstu tíðinda ársins 2017 á mörkuðum, en virðið stendur nú í rúmlega 15 þúsund Bandaríkjadölum, eða um 1,6 milljónum króna.
Hækkunin í dag var um 10 prósent en sveiflurnar á virði Bitcoin hafa verið miklar og hraðar. Fjallað hefur verið ítarlega um Bitcoin á vef Kjarnans að undanförnu.
Frá því í júní í fyrra, þegar Thiel er sagður hafa stóraukið fjárfestingar sínar, var virði Bitcoin um 1.200 Bandaríkjadalir, en það fór svo stigvaxandi eftir því sem leið á árið.
Bitcoin is getting a boost from a report that billionaire Peter Thiel is making a big bet on cryptocurrency https://t.co/lztdkfOVhY pic.twitter.com/nOYQ2yX04u
— Bloomberg (@business) January 2, 2018
Thiel er einn þeirra sem hagnaðist verulega á fjárfestingum í Facebook og var meðal fyrstu fjárfesta til að leggja félaginu til umtalsvert fjármagn. Hann er einnig meðal hluthafa Tesla og hefur stutt Elon Musk í hans frumkvöðlaverkefnum.
Hann er fimmtugur að aldri og áhrifamikill í tæknifjárfestingum í Sílikondalnum. Þá er hann umdeildur, ekki síst vegna stuðnings við Donald Trump Bandaríkjaforseta, en hann hélt meðal annars erindi á fundi Repúblikana í aðdraganda kosningana í nóvember 2016 og hvatti til þess að Bandaríkjamenn breyttu stjórnmálunum.
Heildareignir Thiel voru metnar á 2,5 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 270 milljörðum króna, í byrjun síðasta ár, samkvæmt lista Forbes.