Stjórnmálaflokkarnir hafa boðað fund þar sem markmiðið er að leggja fram drög að sameiginlegri aðgerðaáætlun gegn kynferðislegu áreiti, ofbeldi og mismunun. Markmiðið er að búa til verklagsreglur sem flokkarnir geta farið eftir, komi upp tilkynning um kynferðisáreiti innan þeirra. Fundurinn mun fara fram 22. janúar næstkomandi.
Flokkarnir sem um ræðir eru Sjálfstæðisflokkurinn, Píratar, Vinstri græn, Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn, Björt framtíð, Viðreisn, Samfylkingin og Flokkur fólksins. Anna Lísa Björnsdóttir, skrifstofustjóri Vinstri grænna er einn skipuleggjenda viðburðarins. Hún segir að góð samstaða sé innan flokkanna til að taka höndum saman og að allir flokkarnir sýni verkefninu áhuga.
Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi ráðherra og forseti Bandalag íslenskra listamanna, verður fundarstjóri á fundinum. Hún segir að það sé merkilegt að allir stjórnmálaflokkarnir ætli að koma saman til að standa með #metoo-hreyfingunni. Hún segir að stjórnmálaflokkarnir beri upp starf stjórnkerfisins á landsvísu og því séu þeir í góðri stöðu til að sýna fordæmi. Henni finnst frábært að flokkarnir taki þessu svona alvarlega með því að koma saman í þeim tilgangi að valdefla konur og breyta kúltúrnum sem byggir á valdboði og jaðarsetningu kvenna.
#Metoo-byltingin, sem byrjaði í Hollywood, hefur farið eins og eldur um sinu um íslenskt samfélag. Nú þegar hafa 13 starfshópar kvenna stigið fram með sínar sögur af kynferðisáreiti á vinnustöðum. Kolbrún segir að ætla megi að fleiri stigi fram í kjölfarið.