Úthlutunarnefndir Launasjóðs listamanna hafa lokið störfum vegna úthlutana listamannalauna árið 2018.
Frá þessu er greint á vefsíðu Rannís.
Til úthlutunar eru 1.600 mánaðarlaun en sótt var um 9.053 mánuði. Árangurshlutfall sjóðsins er því 18 prósent, ef reiknað er eftir mánuðum. Alls bárust 852 umsóknir um starfslaun frá einstaklingum og hópum. Umsækjendur voru samtals 1.529. Úthlutun fengu 369 listamenn.
Starfslaun listamanna eru 377.402 kr. á mánuði samkvæmt fjárlögum 2018. Um verktakagreiðslur er að ræða.
79 rithöfundar fá listamannalaun
Á meðal rithöfunda sem fá listamannalaun eru Eiríkur Örn Norðdahl, Hallgrímur Helgason, Sjón og Þórunn Jarla Valdimarsdóttir sem fá öll tólf mánuði.
Andri Snær Magnason, Dagur Hjartarson, Guðrún Eva Mínervudóttir og Vilborg Davíðsdóttir eru meðal þeirra sem fá úthlutaða 9 mánuði.
Alls fá 15 sviðslistahópar listamannalaun og fær sviðslistahópurinn 16 elskendur 22 mánuði.
Úr launasjóði hönnuða eru úthlutaðir 50 mánuðir. Hildur Björk Yeoman fær 6 mánuði í listamannalaun og Guja Dögg Hauksdóttir og Katrín Ólína Pétursdóttir 4 mánuði. Alls fá 18 hönnuðir listamannalaun árið 2018.
49 tónlistarflytjendur fá úthlutun
76 myndlistarmenn fá úthlutun frá 2 mánuðum upp í 18 mánuði en alls eru úthlutaðir 435 mánuðir. 18 mánuði fá þau Haraldur Jónsson og Hulda Rós Guðnadóttir.
Úr launasjóði tónlistarflytjenda eru úthlutaðir 180 mánuðir. Ágúst Ólafsson fær 12 mánuði í listamannalaun en alls fá 49 tónlistarflytjendur úthlutun.
Úr launasjóði tónskálda eru 190 mánuðir úthlutaðir. Örn Elías Guðmundsson eða Mugison fær þar 12 mánuði og meðal þeirra sem fá 6 mánuði eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Kjartan Valdemarsson. Píanóleikarinn Árni Heiðar Karlsson og tónlistarmaðurinn Svavar Knútur Kristinsson fá 3 mánuði í listamannalaun.
Menntamálaráðherra skipar stjórn listamannalauna
Menntamálaráðherra skipaði stjórn listamannalauna í október 2015. Skipunin gildir til 1. október 2018. Stjórn hefur yfirumsjón með sjóðunum og ber að sjá til þess að farið sé að lögum og reglum. Stjórnina skipa Bryndís Loftsdóttir formaður, Sigríður Sigurjónsdóttir varaformaður og Hlynur Helgason.
Skipting umsókna milli sjóða 2018 var eftirfarandi:
Launasjóður hönnuða: 50 mánuðir voru til úthlutunar. Sótt var um 360 mánuði. Alls bárust 46 umsóknir í sjóðinn frá 52 listamönnum, 31 einstaklingsumsókn og 10 samstarfsverkefni. Starfslaun fá 18 einstaklingar, 15 konur og 3 karlar.
Launasjóður myndlistarmanna: 435 mánuðir voru til úthlutunar. Sótt var um 2.694 mánuði. Alls bárust 236 umsóknir í sjóðinn frá 245 umsækjendum, 222 einstaklingsumsóknir og 13 samstarfsverkefni. Starfslaun fá 76 einstaklingar, 50 konur og 26 karlar.
Launasjóður rithöfunda: 555 mánuðir voru til úthlutunar. Sótt var um 2.310 mánuði. Alls bárust 215 umsóknir í sjóðinn frá 216 umsækjendum, 187 einstaklingsumsóknir og 5 samstarfsumsóknir. Starfslaun fá 79 einstaklingar, 35 konur og 44 karlar.
Launasjóður sviðslistafólks: 190 mánuðir voru til úthlutunar. Sótt var um 1.675 mánuði. Samtals barst 131 umsókn í sjóðinn frá 731 umsækjanda, 673 listamönnum í 95 hópaumsóknum og 58 einstaklingum. Starfslaun fá alls 111 þátttakendur, 62 konur, 48 karlar og 1 ónefndur. Fimmtán leikhópar fengu starfslaun, með 83 listamönnum í 104 hlutverkum, auk 7 listamanna í einstaklingsumsóknum og samstarfsverkefni.
Launasjóður tónlistarflytjenda: 180 mánuðir voru til úthlutunar. Sótt var um 996 mánuði. Alls bárust 107 umsóknir í sjóðinn frá 164 umsækjendum, 86 einstaklingsumsóknir og 14 samstarfsverkefni. Starfslaun fá 49 einstaklingar, 25 konur og 24 karlar.
Launasjóður tónskálda: 190 mánuðir voru til úthlutunar. Sótt var um 1.018 mánuði. Alls bárust 117 umsóknir í sjóðinn frá 121 umsækjanda, 108 einstaklingsumsóknir og 17 samstarfsverkefni. Starfslaun fá 36 einstaklingar, 8 konur og 28 karlar.