Nýskipaður formaður, Þórunn Egilsdóttir, fær 135.480 krónur í greiðslur á mánuði fyrir formannsstöðuna. Þórunn er einnig þingmaður og þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Fyrir þá vinnu þiggur hún 1,1 milljón króna á mánuði í þingfarakaup auk þess sem hún fær 165.179 krónur á mánuði í álag vegna starfa sinna sem þingflokksformaður.
Aðrir sem sitja í samgönguráði fá ekki greitt fyrir stöðu sína innan ráðsins en þeir sem sitja með henni þar eru forstöðumenn Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og Isavia.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra skipaði í síðustu viku, Þórunni sem formann samgönguráðs. Í tilkynningu vegna skipunar hennar segir að Þórunn hafi víðtæka reynslu af samgöngu - og þingmálum. Þá hafi hún hefur setið í stjórn Samtaka sveitarstjórnar Austurlands sem fjalla m.a. mikið um samgöngur. Þórunn hefur setið í sveitarstjórn í nokkur ár, verið oddviti Vopnafjarðarhrepps, setið í nokkrum þingnefndum, auk forsætisnefndar Alþingis. Hún hefur einnig mikla reynslu af verkefnastjórnun. Hún var kjörin til setu á Alþingi 2013 fyrir Framsóknarflokkinn og varð formaður þingflokks hans 2015 og aftur frá 2016.
Samkvæmt lögum um samgönguráð skal ráðherra skipa formann samgönguráðs og er skipunartími hans fjögur ár, en er þó takmarkaður við setu þess ráðherra sem skipar. Þórunn kemur í stað Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem var skipaður í starfið af Jóni Gunnarssyni, fyrrverandi samgönguráðherra.