Konur í íþróttum hafa sent frá sér yfirlýsingu og samantekt sagna af kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í tengslum við metoo-byltinguna.
Þær segja ljóst að kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun vera vandamál í hinum karllæga íþróttaheimi Íslands líkt og á öðrum stöðum í samfélaginu. Þær segja sjást í frásögnunum að vandann megi finna í framkomu þjálfara, stjórnarmanna, nuddara og sjúkraþjálfara, dómara, sjálfboðaliða, fjölmiðla, sem og hjá öðrum iðkendum.
Ein sagan greinir frá því að eftir að íþróttakonu var nauðgað af þjálfara sínum hafi hún grennst töluvert og átt mjög erfitt með að borða og sofa. Hún hafi síðan greint tveimur landsliðsþjálfurum frá nauðguninni svo þeir vissu hvað hún var að ganga í gegnum. Nokkrum dögum síðar hafi einn aðstoðarlandsliðsþjálfari komið upp að henni og sagt að hún ætti að líta á björtu hliðarnar, kannski var það gott að henni hafi verið nauðgað því nú væri hún svo grönn.
Hægt er að lesa allar sögur íþróttakvenna hér.
„Mikið valdamisræmi er á milli iðkenda annars vegar og þjálfara og annarra sem starfa í kringum íþróttina hins vegar. Vandamálið er sérstaklega viðkvæmt þar sem stór hluti iðkenda eru börn og unglingar. Hvers konar ofbeldi og áreitni grefur undan sjálfstrausti, sjálfsvirðingu og vellíðan og fyllir þann sem fyrir því verður af skömm, sjálfsásökunum og ótta sem svo hefur áhrif á árangur,“ segir í yfirlýsingu frá hópnum.
„Stúlkur og konur eiga skilið að fá að iðka íþrótt sína í öruggu umhverfi og vera lausar við kynbundið misrétti og kynferðislega áreitni af öllum toga. Við setjum því fótinn niður og biðjum um leikhlé. Við sættum okkur ekki við mismunun, ofbeldi eða áreitni og köllum eftir breytingum,“ segja konurnar.
Þær krefjast þess að málið sé tekið föstum tökum, að öll íþróttafélög, sérsambönd, þjálfarar og aðrir innan íþróttanna, líti í eign barm og lofi stúlkum og konum breytingum til frambúðar. Þá krefjast þær þess að umhverfi íþróttanna breytist, að konum sé gert kleift að segja frá ofbeldi án þess að það komi niður á framtíðarmöguleikum þeirra innan íþróttarinnar, að á þær sé hlustað, að með þeim sé staðið og að þeim sé trúað. Síðast en ekki síst krefjast þær þess að geta stundað íþróttir án þess að verða fyrir ofbeldi eða áreitni.
Undir yfirlýsinguna skrifa 462 íþróttakonur.