Efnahagsástandið í Evrópusambandinu heldur áfram að batna. Atvinnuleysi hefur ekki verið minna í níu ár og hagvöxtur ekki meiri í tíu ár.
Atvinnuleysi innan Evrópusambandsins var 7,3 prósent í nóvember síðastiðnum. Það er minnsta atvinnuleysi sem mælst hefur innan sambandsins frá því í hrunmánuðinum október 2008, eða í níu ár. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Alls er áætlað að um 18,1 milljónir manna séu atvinnulausir í löndununum sem tilheyra sambandinu. Þeim fækkaði um 2,1 milljónir frá nóvember 2016. Á tímabilinu fækkaði atvinnulausum í öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins.
Minnst er atvinnuleysið í Tékklandi (2,5 prósent), Möltu (3,6 prósent) og Þýskalandi (3,6 prósent). Mest er það hins vegar í Grikklandi (20,5 prósent) og á Spáni (16,7 prósent). Atvinnuleysis minnkaði hins vegar líka mest í Grikklandi, en það hafði verið 23,2 prósent haustið 2016.
Til samanburðar má nefna að atvinnuleysi í Bandaríkjunum var 4,1 prósent í október 2017. Á Íslandi var það 2,1 prósent í nóvember sama ár.
Atvinnuleysi hjá ungu fólki enn mikið
Atvinnuleysi á meðal ungs fólks hefur lengi verið mikið vandamál í sumum Evrópusambandsríkjum, sérstaklega Grikklandi, Spáni og Ítalíu. Vert er að taka fram að þetta eru þau þrjú lönd heims sem talin eru vera með stærstu svörtu hagkerfin. Tölur Eurostat ná augljóslega ekki yfir þá sem stunda svarta atvinnustarfsemi.
Þeim einstaklingum undir 25 ára aldri sem eru atvinnulausir fækkaði um 429 þúsund á einu ári. Í nóvember í fyrra voru þeir 3,7 milljónir alls. Áfram sem áður er skráð atvinnuleysi mest hjá ungu fólki í Grikklandi (39,5 prósent), Spáni (37,9 prósent) og á Ítalíu (32,7 prósent).
Staðan meðal ungs fólks er best í Tékklandi (fimm prósent) og Þýskalandi (6,6 prósent).
Mesti vöxtur í áratug
Efnahagur Evrópusambandsríkjanna hefur stöðugt verið að styrkjast á undanförnum árum. Árið 2016 var til að mynda meiri hagvöxtur á evrusvæðinu en í Bandaríkjunum og var það í fyrsta sinn frá huni sem það gerðist. Störfum hefur líka fjölgað mikið á örfáum árum og Grikkland, eina Evrópusambandsríkið sem enn er þáttakandi í efnahagsáætlun á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna efnahagserfiðleika sem landið rataði í 2008, væntir þess að það geti „útskrifast“ úr þeirri áætlun í ár.
Spár gera ráð fyrir að hagvöxtur í Evrópusambandsríkjunum hafi verið 2,3 prósent í fyrra, verði 1,9 prósent í ár. og 1,9 prósent árið 2019. Það er mesti hagvöxtur sem orðið hefur innan sambandsins í áratug. Spár gera ráð fyrir því að Bretland, sem ætlar að yfirgefa Evrópusambandið, muni upplifa mun minni vöxt en þann sem búist er við innan sambandsins á næstu árum. Þannig er gert ráð fyrir því að hagvöxtur í Bretlandi verði 1,1 prósent árið 2019,
Verðbólga innan evrusvæðisins mælist nú 1,4 prósent, sem er lægra en á Íslandi, þar sem verðbólga mælist 1,9 prósent.