Foreldrar barna í Garðabæ greiða 146.000 krónum meira á ári fyrir leikskóladvöl barna sinna en foreldrar í Reykjavík. Almennt mánaðargjald fyrir leikskólapláss er 38.465 krónur á mánuði í Garðabæ en 25.234 krónur mánaðarlega hjá Reykjavíkurborg. Miðað er við 8 klukkustunda dvöl með fæði.
Þetta kemur fram í úttekt verðlagseftirlits ASÍ á leikskólagjöldum sveitarfélaganna. Sextán fjölmennustu sveitarfélögin voru í úrtakinu.
Leikskólagjöld fyrir forgangshópa, sem víðast eru einstæðir foreldrar, námsmenn og öryrkjar, eru einnig lægst í Reykjavík eða 16.770 krónur á mánuði en hæst hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, 29.512 krónur. Mikill munur er því á lægstu og hæstu leikskólagjöldunum fyrir forgangshópa eða 12.842 krónur á mánuði sem jafngildir 141.262 krónum á ári.
Kópavogur, Akureyri, Árborg, Akranes, Seltjarnarnes, Sveitarfélagið Skagafjörður og Ísafjarðarbær hækkuðu leikskólagjöld sín þannig að 8 tímar með fæði eru dýrari í janúar á þessu ári en á sama tíma í fyrra. Mesta hlutfallslega hækkunin á almennu gjaldi er hjá Sveitarfélaginu Árborg eða 2,9 prósent eða sem nemur 1.025 krónum á mánuði, næst mest hækka almenn gjöld í Kópavogi eða um 2,7 prósent (821 króna á mánuði ) og sömu sögu er að segja um Ísafjarðarbæ en þar hækka gjöldin einnig um 2,7 prósent (954 krónur á mánuði).
Vestmannaeyjar, Reykjavík og Mosfellsbær hafa hins vegar lækkað leikskólagjöld síðan í fyrra. Mestu hlutfallslegu lækkunina má finna í Vestmannaeyjum en þar lækka almenn leikskólagjöld um 10,2 prósent og fara úr 39.578 krónum í 35.550 krónur. Lækkunin nemur því 4.028 krónum á mánuði eða 44.308 krónum á ári. Það ber þó að hafa í huga að leikskólagjöldin voru hæst af öllum stöðum í Vestmannaeyjum í fyrra. Næst mesta lækkunin er í Reykjavík eða 8,1 prósent (2.213 króna lækkun á mánuði) en í Mosfellsbæ lækka gjöldin um 3,7 prósent (1.264 krónur á mánuði).
Lengri vistun en hinir almennu átta tímar getur verið dýr. Þannig getur níunda klukkustundin hækkað heildargjaldið mikið og er mikill munur á þessari auka klukkustund hjá sveitarfélögunum. Dýrust er hún í Kópavogi, 14.066 krónur en ódýrust hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, 2.977 krónur en munurinn er 372 prósent. Í Kópavogi borga foreldrar 31.424 krónur fyrir 8 tíma vistun með fæði en 45.490 fyrir 9 tíma með fæði og hækka leikskólagjöldin því um 44 prósent í þessu tilfelli ef bæta þarf einni klukkustund við daginn. Reykjavík er með næstdýrasta níunda tímann á 10.003 krónur og þar á efir koma Fljótsdalshérað og Vestmannaeyjar.