Evrópusambandið hefur einsett sér að allar plastumbúðir verði gerðar úr endurvinnanlegu efni fyrir árið 2030. Þannig verður dregið verulega úr notkun einnota plasts og skorður settar við notkun örplasts.
Áætlun ESB til að bregðast við plastmengun er ætlað að vernda náttúruna, verja íbúana og styrkja fyrirtækin samkvæmt tilkynningu frá sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi.
„Ef við umbreytum ekki plastnotkun okkar og framleiðslu, verður meira af plasti en fiski í sjónum okkar árið 2050. Við verðum að koma í veg fyrir að plast komist í vatnið okkar, matinn og jafnvel í líkama okkar. Eina langtímalausnin er að draga úr plastúrgangi með því að endurvinna meira og endurnýta. Þetta er áskorun sem borgararnir, iðnfyrirtæki og stjórnvöld þurfa að tækla í sameiningu,“ er haft eftir Frans Timmermans, fyrsta varaforseta framkvæmdastjórnar ESB, í tilkynningunni.
Minna en þriðjungur af því plasti sem Evrópubúar framleiða ratar í endurvinnslu. Plastrusl er 85% af draslinu sem finnst á strandsvæðum víða um veröld. Plastefni er jafnvel farið að koma sér fyrir í lungum fólks og á matarborðinu. Það er örplast í lofti, vatni og fæðunni og áhrif þess á heilsu okkar eru óþekkt. Evrópusambandið hyggst takast á við þessi úrlausnarefni af fullri festu.
Evrópusamandið ætlar að setja 100 milljónir evra eða 12,6 milljarða íslenskra króna í að þróa gáfulegri og endurvinnanlegri plastefni. Þá mun sambandið leiðbeina atvinnulífinu og stjórnvöldum til að menga eins lítið og mögulegt er. Stefnt er að því að atvinnulíf muni hagnast á því að verða umhverfisvænna þar sem bæði séu tækifæri í nýsköpun á þessu sviði auk þess sem kostnaður við endurvinnslu sé nú hár.
Löggjöf ESB hefur þegar dregið úr plastpokanotkun í nokkrum ESB löndum. Nú er sjónum beint að öðrum einnota plastefnum, til að mynda þeim sem eru notuð í veiðarfæri, á grundvelli rannsókna og samráðs við hagsmunaðila. Skorður verða settar við notkun örplasts og merkingar bættar.
Plastáætlun ESB verður að sögn sendinefndarinnar áþreifanlegt framlag til að ná 2030 Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun og til að uppfylla Parísarsamkomulagið. Hún er hluti af yfirgripsmikilli stefnu Evrópusambandsins um að koma á nútímalegu hringrásarhagkerfi í Evrópu.