Sameinuðu þjóðirnar hafa leyft kynferðislegri áreitni og ofbeldi að grassera á starfstöðvum stofnunarinnar víða um heim, ekki hefur verið tekið mark á frásögnum þolenda og gerendur fengið að athafna sig óáreittir. Þetta kemur fram í frétt Guaridan.
Margir núverandi og fyrrverandi starfsmenn Sameinuðu þjóðanna lýsa þöggunarmenningu og að ferlar til að taka á slíkum málum séu gallaðir og komi niður á þolendum.
Fimmtán starfsmenn sem teknir voru í viðtal sögðust hafa kvartað yfir áreitni eða ofbeldi á síðustu fimm árum, allt frá munnlegri áreitni til nauðgana. Sjö konur lögðu fram formlega kvörtun, en slíkt gera fáir af ótta við að missa starf sitt eða í þeirri trú að það skili engu.
Sameinuðu þjóðirnar hafa viðurkennt að það sé vandamál hversu lítið af atvikum eru tilkynnt, en aðalritari stofnunarinnar, Antonio Guterres, hafi forgangsraðað viðbrögðum við kynferðislegu ofbeldi og áreitni.
Starfsmenn SÞ í meira en tíu löndum ræddu við Guardian að fengnu loforði um nafnleysi, að hluta til vegna þess að þeir eru bundnir þagnarskyldu en einnig þar sem þeir óttuðust um framtíð sinna innan stofnunarinnar.
Þrjár konur sem tilkynntu kynferðislega áreitni eða ofbeldi á síðasta árinu sögðust hafa verið neyddar til að hætta eða að þeim hótað uppsögn. Hinir meintu gerendur í málum þessara kvenna, þar á meðal einn háttsettur aðili innan SÞ, eru enn í sínum stöðum.
Ein kona sem mun hafa verið var nauðgað af háttsettum aðila hjá stofnuninni sagði að þrátt fyrir sönnunargögn frá læknum, vitnum og innri rannsókn hjá Sameinuðu þjóðunum hafi stofnunin ekki fundið nægan grundvöll til að styðja við frásögn hennar.
Fjórir núverandi eða fyrrverandi starfsmenn, þar á meðal aðilar sem lögðu ekki fram formlegar kvartanir, sögðu að þeim hafi ekki verið útveguð fullnægjandi læknis- eða sálfræðiaðstoð.