Repúblíkanaflokkurinn birti í gær sigurvegara í keppni Donald Trump sem ber nafnið Fake News Award eða Falsfréttaverðlaunin.
Þeir sem hlutu útnefningar flokksins og forsetans eru meðal annarra Paul Krugman, pistlahöfundur hjá New York Times, CNN, Washington Post og New York Times.
Í bloggfærslu á heimasíðu flokksins, þar sem niðurstöðurnar voru birtar í gær, kemur fram að árið 2017 hafi verið ár hlutdrægni, ósanngjarns fréttaflutnings og jafnvel falsfrétta. „Rannsóknir hafa sýnt að yfir 90 prósent af fréttaflutningi um Trump er neikvæður,“ segir í færslunni.
Heimasíða Repúblíkanaflokksins hrundi stuttu eftir að forsetinn birti tíst um verðlaunin.
Krugman var í fyrsta sæti fyrir að halda því fram þegar Trump var kjörinn að efnahagurinn myndi aldrei jafna sig. Í öðru sæti er fréttamaður ABC Brian Ross sem hélt því ranglega fram að Trump hefði beðið starfsmann kosningabaráttunnar að hafa samband við Rússa. Fréttastofan neyddist síðar til að leiðrétta fréttina, að atvikið hefði átt sér stað eftir kosningarnar. Ross var settur í leyfi.
Í þriðja sæti er fréttastofa CNN fyrir að halda því fram að forsetinn og sonur hans, Donald Trump yngri, hefðu haft aðgang að WikiLeaks gögnum tíu dögum áður en WikiLeaks birti gögnin. Fréttin var leiðrétt.
Í fjórða sæti er umfjöllun TIME um að Trump hafi fjarlægt brjóstmynd af Martin Luther King yngri af skrifstofu forsetans. Um var að ræða tíst frá blaðamanni TIME, sem sendi fleira en tylft tísta út síðar til að leiðrétta mistök sín og baðst afsökunar.
Fimmta sætið fer til Washington Post fyrir að halda því fram að fundur forsetans í Pensacola á Flórída hafi verið mannlaus, en uppselt hafi verið á fundinn. Í rökstuðningi kemur fram að fréttamaður blaðsins hafi sent út mynd af fundarstaðnum löngu áður en fundurinn hófst og þannig áður en fundargestir mættu. Fréttamaðurinn baðst afsökunar.
Minnst er á CNN í fleiri tilvikum, fyrir að halda því fram að Trump hafi gefið skrautfiskum of mikið af fæði í heimsókn til japanska forsætisráðherrans jafnvel þó að ráðherrann hafi leitt fóðurgjöfina. Þá hafi CNN haldið því fram að fyrrverandi yfirmaður upplýsingamála Hvíta hússins, Anthony Scaramucci hafi fundað með Rússum, en dregið fréttina til baka og beðist afsökunar.
Þá er minnst á Newsweek fyrir að halda því fram að forsetafrú Póllands, Agata Kornhauser-Duda, hafi ekki tekið í höndina á Trump sem og New York Times fyrir að halda því ranglega fram á forsíðu að stjórnvöld undir stjórn Trump hafi falið skýrslu um loftslagsmál, sem var þvert á móti öllum aðgengileg.
Síðast í upptalningunni er Rússlands samráðiðnefnt sem aðal falsfréttin og eitt mesta gabb sem framkvæmt hefur verið á bandarísku þjóðinni. „THERE IS NO COLLUSION“ eða það er ekkert samráð segir í tilkynningunni.
And the FAKE NEWS winners are...https://t.co/59G6x2f7fD
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 18, 2018