Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir hefur verið ráðin í nýja stöðu aðstoðardagskrárstjóra RÚV. Starfsmönnum RÚV var tilkynnt um ráðninguna í morgun.
Dagskrárstjóri RÚV er Skarphéðinn Guðmundsson en Ragnhildur mun vinna honum við hlið að dagskrártengdum málefnum sjónvarps. Hún mun koma að ytri og innri samskiptum dagskrárdeildar sjónvarps og vera alhliða stuðningur við dagskrárstjóra meðfram því að sinna áfram að eigin dagskrárgerð.
Ragnhildur hefur starfað hjá RÚV frá árinu 2004 og meðal annars sinnt dagskrárgerð fyrir Kastljós, Óskalög þjóðarinnar, Dans dans dans, Gott kvöld, Íþjóðina með Ragnhildi Steinunni og Laugardagslögin svo fátt eitt sé nefnt.
Ragnhildur situr þar að auki í framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar og hefur haldið utan um dagskrárgerð keppninnar síðustu ár. Þá hefur hún verið kynnir keppninnar, nær viðstöðulaust, frá árinu 2007.