Philadelphia Eagles lagði New England Patriots í leiknum um Ofurskálina í nótt, 41 - 33. Spennan var mikil fram á síðustu stundu, en Eagles hafði þó yfirhöndina í stigum lengst af.
Justin Timberlake var með hálfsleikatriðið í leiknum og er óhætt að segja að öllu hafi verið tjaldað til í því. Hápunkturinn á flutningi hans var þegar hann söng lagið I Would Die 4 U, á meðan tónlistarmaðurinn Prince birtist á blaktandi tjaldi syngjandi með.
Prince lést 21. apríl 2016 en hann fæddist í Minnesota, þar sem leikurinn fór fram að þessu sinni. Justin vildi með þessu votta Prince virðingu sína en þeir voru miklir vinir, og hefur Justin lýst honum sem sínum mesta áhrifavaldi.
Prince var með eitt umtalaðasta og besta atriði í sögu Ofurskálarinnar, þegar hann var með atriðið árið 2007, í mígandi rigningu og þrumuveðri í Florida. Hann lauk atriði sínu á epísku gítarsólói í laginu Purple Rain, þar sem hann birtist með gítarinn á fjólubláu tjaldi, ekki ósvipuðu því sem áhorfendur fengu að sjá hjá Justin Timberlake.
Auglýsingarnar voru af dýrari gerðinni að þessu sinni, og en auglýsingar í kringum leikinn eru dýrasti auglýsingatíminn í sjónvarpi í Bandaríkjunum, ár hvert. Þær auglýsingar sem vöktu einna mesta athygli í aðdraganda leiksins voru auglýsingar frá Doritos og Amazon. Hjá þeim síðarnefndu birtust þekkar stjörnur í auglýsingu þar sem Alexa, varan frá Amazon, átti að hafa misst röddina.
Anthony Hopkins, Gordon Ramsay og Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, komu meðal annars fram í auglýsingunni.
Hópur Íslendinga birtist einnig í auglýsingahléi leiksins. Í þeirri auglýsingu var verið að auglýsa Dodge Ram bifreið, og var Magnús Ver Magnússon, kraftlyftingamaður, þar fremstur í flokki.