WOW air var stærsta flugfélag Íslands í janúar og flutti fleiri farþega til og frá landinu en Icelandair.
Í tilkynningu frá WOW air segir að félagið hafi flutt 217 þúsund farþega til og frá landinu í janúar og sætanýting félagsins hafi verið 88 prósent. Á sama tíma flutti Icelandair tæplega 210 þúsund farþega til og frá landinu og var sætanýting þeirra 72,2 prósent.
Farþegum WOW í janúar fjölgai um 27 prósent frá sama mánuði í fyrra og framboðnum sætiskílómetrum fjölgaði um 30 prósent á sama tíma.
Í tilkynningu WOW air er haft eftir Skúla Mogensen forsjtóra og stofnanda WOW air að hann efist um að nokkur hafi átt von á því að WOW air yrði stærsta flugfélagið á Íslandi á rétt rúmum fimm árum þegar þau hófu þetta ævintýri. „Við höfum lagt okkur fram við að dreifa farþegafjöldanum yfir allt árið og það er ánægjulegt að sjá okkur fylla vélar líka í janúar,“ segir Skúli.
Farþegafjöldi Icelandair í janúar jókst um 2 prósent frá janúar á síðasta ári. Framboð var aukið um 6 prósent. Fraktflutningar félagsins jukust hins vegar um 42 prósent á milli ára, sem í tilkynningu félagsins frá því í gær er sagt skýrast af auknum innflutningi til landsins, auk þess sem verkfall sjómanna á síðasta ári hafi áhrif á samanburðinn.