Samkeppniseftirlitið hyggst rannsaka háa gjaldtöku af hópferðabílum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Gray Line kærði áform Isavia um skipulag og fyrirhugaða gjaldtöku á almennum bílastæðum fyrir hópferðabifreiðir við flugstöðina, þar sem þess var krafist að eftirlitið gripi til íhlutunar vegna þeirra samkeppnishamla sem fyrirtækið taldi að fælist í fyrirhugaðri gjaldtöku.
Gray Line fór fram á að eftirlitið taki ákvörðun til bráðabirgða þar sem stöðvuð yrði gildistaka fyrirhugaðra stæðisgjalda fyrir hópferðarfyrirtæki sem og að Isavia verði gert óheimilt að mismuna akstursaðilum eftir eignarhaldi og að allir sem sinni hópferðarakstri í samkeppni til og frá flugstöðinni greiði sama gjald. Fyrirtækið krafðist þess einnig að eftirlitið beitti sektarúrræðum samkvæmt samkeppnislögum leiði rannsókn í ljós að Isavia hafi gerst brotlegt við lögin.
Í bréfi Samkeppniseftirlitsins til Isavia segir að ljóst sé af frummati eftirlitisins að fyrirhuguð gjaldtaka muni að óbreyttu leiða til mikillar verðhækkunar á farþegaflutningum til og frá flugvellinum. Þegar af þeirri ástæðu og vegna forsögu málsins hafi Samkeppniseftirlitið ákveðið að taka kæru Gray Line til meðferðar og hefja rannsókn.
Isavia fær frest til 16. febrúar til að skýra sjónarmið sín og skila upplýsingum um gjaldtökuáformin, en gjaldtakan á að hefjast 1. mars. Í bréfinu segir ennfremur að fyrir liggi að atvinnustarfsemi tengd flugstöðinni geti haft verulega sérstöðu í samkeppnislegu tilliti, sem geti falið í sér rök fyrir hraðari málsmeðferð heldur en ella. Óskað er eftir sjónarmiðum Isavia til bráðabirgðaákvörðunar og spurt hvort til álita komi af hálfu ríkisfyrirtækisins að fresta gjaldtökunni á meðan rannsóknin stendur yfir.
Þann 1. desember síðastliðinn tilkynnti Isavia að gjaldataka myndi hefjast þann 1. mars af hópferðabílum sem sækja farþega á svokölluðum fjarstæðum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Gjaldið á að vera 7.900 krónur fyrir minni bíla og 19.900 fyrir stærri bíla. Gray Line kærði þessi áform til Samkeppniseftirlitsins á þeim forsendum að fyrirhuguð gjaldtaka væri margfalt hærri en eðlilegt gæti talist og stríddi alvarlega gegn hagsmunum neytenda. Benti Gray Line á að við margrar alþjóðlegar flugstöðvar í nágrannalöndunum væri ýmist ekkert gjald tekið af þessum hagkvæma og umhverfisvæna ferðamáta, eða miklu lægra en Isavia áformaði.