Grímur Atlason er hættur störfum sem stjórnandi Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar, en um þetta tilkynnir hann á Facebook síðu sinni. Hann hefur um árabil stýrt þessari vinsælu tónlistarhátíð. „Eftir 8 ár hjá Iceland Airwaves Music Festival hef ég komist að samkomulagi við stjórn og eiganda hátíðarinnar um starfslok. Þetta hefur verið magnaður tími og það eru algjör forréttindi að hafa fengið að starfa við það sem ég elska mest í lífinu fyrir utan fjölskylduna: tónlist. Ég er stoltur og þakklátur fyrir að hafa fengið að stýra stórkostlegri tónlistarhátíð sem er langbesta tónlistarhátíðin á Íslandi og þó víðar væri leitað. Ég kveð samstarfsfólk mitt með söknuði og ekki síst allt það frábæra tónlistarfólk sem ég hef fengið að starfa með. Það fer vel á því, nú þegar ár hundsins er handan hornsins, að hundar haldi til austurs,“ segir Grímur meðal annars á Facebook síðu sinni.
Greint var frá því á vef Vísis í dag, að viðræður um kaup Senu á tónlistarhátíðinni, sem Icelandair hefur átt og rekið, væru vel á veg komnar.
Grímur hafði áður fjallað um það opinberlega, að rekstur hátíðarinnar hefði verið þungur. Hátíðin hefur þó sett mikinn svip á tónlistarlífið á Íslandi en þúsundir erlendra gesta heimsækja Ísland ár hvert til að sækja tónleikadagskrá hátíðarinnar, vítt og breitt um Reykjavík.