Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði RÚV leggja sig í einelti með fréttaflutningi af aksturskostnaði hans. Þetta sagði Ásmundur í viðtali við Einar Þorsteinsson í Kastljósi kvöldsins.
Einar spurði Ásmund út í útreikninga Félags íslenskra bifreiðareigenda fyrir Morgunútvarp Rásar þar sem fram kom að það kostar um tvær milljónir króna að reka Kia Sportage-jeppa á ári. Ásmundur á slíkan bíl og fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar frá Alþingi í fyrra vegna keyrslu hans og hvort hann væri þannig að taka um 2,5 milljónir króna í vasann umfram útlagðan kostnað fyrir akstrinum.
Ásmundur sagðist ekki hafa reiknað dæmið með þessum hætti og þó hann vilji ekki draga FÍB í efa geri hann athugasemdir við útreikningana. En um væri að ræða ríkistaxta sem ekki hafi verið saminn sérstaklega fyrir Ásmund heldur eigi hann við um alla þingmenn, ríkisstarfmenn og marga í atvinnulífinu sem miði akstur starfmanna sinna við taxta ríkisins. „Þannig að það er ekkert við mig að sakast.“
Fjárhæðirnar komu á óvart
Ásmundur sagði að þegar hann upphaflega tók ákvörðun um að fara á þing þá hafi hann vitað að hann yrði aldrei heima. Vinnan sé áhugamál hans og hann sé óþreytandi við að sinna kjördæmi sínu. Hann sé einnig óþreytandi við að sinna starfi sínu á Alþingi þar sem hann sé með góða mætingu. En þar sem hann hafi ekki verið að leggja þessar fjárhæðir saman frá mánuði til mánaðar þá hafi þessar fjárhæðir komið honum dálítið á óvart.
Ásmundur sagði að það væri ríkisins að endurskoða taxtann sé hann hvetjandi til að menn séu að „hafa einhvern aukapening upp úr honum“, greiða eigi rekstur á bílnum og kannski aðeins rúmlega það, það væri eðlilegt.
Einar spurði Ásmund út í þær reglur þingsins sem kveða á um að keyri menn yfir 15 þúsund kílómetra skuli þeir notast við bílaleigubíla. Ásmundur sagði þær reglur hafa verið settar í lok síðasta þings án samráðs við þingmenn sem stunda heimakstur og að þeir hafi verið í viðræðum við forsætisnefnd um þær. Aðspurður að því af hverju hann fari samt ekki eftir settum reglum sagði Ásmundur vera að skoða það núna. Hann hafi gert athugasemdir við þá bíla sem honum stóð til boða. „Ég ætla ekki að fara að keyra hérna á ónýtum bílaleigubílum, keyrðum hundruð þúsunda kílómetra.“ Hann hafi boðið þeim að leigja af honum hans eigin bíl á sömu kjörum og bílaleigubílanir, þingið sé ekki að fara að leigja einhverja toppbíla. „Þetta snýst um það að ég njóti öryggis á vegunum og geti ferðast á milli á öruggan og góðan hátt.“
Líkara einelti en fréttaflutningi
Þegar Ásmundur var spurður um þann kílómetrafjölda sem um ræðir til að réttlæta þessar greiðslur sagðist hann ekki ætla í þennan leik. Það sé langt á Selfossi og Höfn og fleiri staði innan Suðurkjördæmis og þegar hann er beðinn um að koma í einhverjum erindum þá bara drífi hann sig af stað.
Ásmundur sagði þann tíma sem hann eyðir undir stýri vera til viðbótar við þann sem hann eyðir á þinginu. Ferðalögin fari fram á kvöldin og um helgar, sækja bæjarhátíðir á sumrin. „Ég tel það bara ekki eftir mér.“
Hann sagðist ennfremur nota bílinn í prófkjörsbaráttu. Aðspurður um hvort honum þætti það eðlilegt sagði hann að þetta væru bara reglurnar. Hann hafi ekki samið þær.
Einar spurði Ásmund hvort ekki væri eðlilegast að þessar greiðslur væru allar uppi á borðum og svaraði Ásmundur: „Það er bara sjálfsagt þá er það bara hjá öllum. Ég verð bara að segja eins og er að þið eruð alltaf að fara í þennan leik. Þið eruð búin að vera í heila viku að fjalla um þetta hérna, hérna á Ríkisútvarpinu, og hérna ég verð nú að segja það eins og er að það er nú gengið nokkuð nærri manni með þetta. Fólk hefur sagt við mig að þetta er miklu líkara einelti heldur en fréttaflutningi.“
Einar sagðist aðeins vera að spyrja eðlilegra spurninga um í hvað væri verið að eyða skattfé. Ásmundur nefndi þá starfsbróður Einars, Helga Seljan, sem kallaði á skoðanabræður sína í þáttinn sinn, Vikulokin á Rás 1, þar sem þeir hefðu tekið klukkutíma í að „drulla yfir“ Ásmund. „Hvers konar vinnubrögð eru það?“
Viljum við að allir séu 101 rotta?
Ásmundur sagðist hafa lagt fram sína akstursdagbók í lok hvers mánaðar, ekki fengið athugasemdir og þingið hefði hvorki kæft hann né klagað hann. Nú séu þingmenn að ræða málið við forsætisnefndina og mikilvægt sé að klára það.
Hann sagði mjög marga þingmenn geta flogið, séu með húsastyrk í Reykjavík, sem nálgist þrjár milljónir á ársgrundvelli. Þeir fljúgi 70 til 100 flug á ári og þá sé um ræða upphæðir sem séu meira en 4,6 milljónir. Að auki hafi þeir bílaleigubíla eða akstursbók. Ásmundur spurði hvort það sé vilji fyrir því að hafa þingmenn sem búi á landsbyggðinni, austur á fjörðum eða norður í landi, hvort það eigi að gera þeim kleift að búa heima hjá sér og sækja þingið. „Eða viljum við bara það séu allir 101 rotta? Er það það sem þið viljið?“ Hann sagðist telja að margir vilji að allt eigi að vera eins og í Reykjavík. „Þið hafið engan skilning á því að á landsbyggðinni er mikil eftirspurn eftir því að þingmennirnir komi í heimsókn, séu sýnilegir, ekki bara fyrir kosningar, heldur allan tímann. Þannig þingmaður er ég og þannig þingmaður ætla ég að vera,“ sagði Ásmundur.
Hluti af lýðræðinu að sækja kjósendur heim
Þingmaðurinn sagði í lokin að hann hefði ekkert við það að athuga að sporslur til þingmanna séu gerðar opinberar. En þá verði bara sett upp önnur keppni, um hver fái mestan stuðning frá þinginu. Þetta verði að skoðast saman, ekki bara taka eina línu út úr, aksturskostnaðinn í þessu tilfelli. „Þið verðið bara að átta ykkur á því að þetta er líka hluti af lýðræðinu að þingmenn geti líka sótt sína kjósendur heim.“
„Ég held það sé eðlilegt að það sé allt uppi á borðunum og ég held það sé líka eðlilegt að fréttaflutningur af þessum málum, eins og öðrum, að hann sé, að það sé eitthvað eðlilegt í kringum þetta, að það sé ekki bara stöðugt einelti af hálfu þessarar stofnunar.“
Í lok þáttar var tekið fram að Ásmundur hafi að loknum upptökum á viðtalinu viðurkennt að hafa farið rangt með þegar hann var spurður út í hvort hann hefði látið ríkið greiða fyrir akstur við upptökur á þættinum Auðlindakistan. Hann sagði að upptökufólk hefði setið með honum í bílnum á leið í upptökur á viðtölum. Ferðirnar hafi fyrst og fremst verið til að hitta kjósendur en tökulið ÍNN hafi fengið að fljóta með til að gera sjónvarpsþætti.