Upplýsingar um stöðugleikaframlög og stöðugleikaskilyrði verða afhent nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd á eftir. Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í svari hennar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar spurði Katrínu um sölu á hlutafé ríkisins í Arion banka á þriðjudag, þegar kaupréttur á hlutnum var virkjaður af Kaupskilum, félagi í eigu Kaupþings þar sem vogunarsjóðirnir eru stærstu hluthafarnir. Greiddu þeir um 23 milljarða fyrir 13 prósenta hlut ríkisins. Þá seldi Kaupskil rúmlega 5 prósenta hlut í bankanum til fjölda sjóða, bæði innlendra og erlendra.
Logi sagði söluferlið einkennast af ógagnsæi. „Örfáir einstaklingar sem fáir vita hverjir eru fara með mjög mikla hagsmuni í þessum málum.“
Katrín sagðist sammála því að um þessi mál þurfi að ríkja sem mest gangsæi. Hluthafasamkomulagið hafi verið birt en ríkisstjórinin hafi óskað eftir því við Seðlabankann að stöðugleikaskilyrðin verði birt sem og að ákveðið hafi verið að nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd fái í trúnaði afhentar upplýsingar um bæði stöðugleikaframlögin og -skilyrðin.