Rúmlega 70 prósent Íslendinga segjast vera með Costco kort. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR. Í niðurstöðunni kemur fram að af þeim sem eru með aðildarkort hugðust 60 prósent endurnýja kortið þegar þar að kæmi en 35 prósent eru óákveðin og 6 prósent hyggjast ekki endurnýja aðildina.
Hlutfall kvenna og karla með Costco aðildarkort er hnífjafnt eða 71 prósent. Eilítið fleiri karlar (61 prósent en konur (59 prósent) hyggjast þó endurnýja aðildina.
Íslendingar í aldurshópnum 30-49 ára eru hvað líklegastir til að vera með Costco aðildarkort eða 80 prósent, samanborið við 60 prósent þeirra í elsta aldurshópnum (68 ára og eldri) og 58 prósent í yngsta aldurshópnum (18-29 ára). Íslendingar í aldurshópnum 30-49 ára eru jafnframt líklegri en aðrir til að endurnýja aðildina.
Eins og gefur að skilja eru töluvert fleiri íbúar Höfuðborgasvæðisins (77 prósent) með Costco aðildarkort heldur en íbúar landsbyggðarinnar (60 prósent). Hlutfall þeirra sem ætla að endurnýja aðildina er þó nokkuð jafnt eða 60 prósent íbúa Höfuðborgarsvæðisins og 59 prósent íbúa landsbyggðarinnar.
Stuðningsfólk Miðflokksins (81 prósent) reyndist líklegast til að vera með Costco aðildarkort en stuðningsfólk Framsóknarflokks (59 prósent) og Vinstri grænna (60 prósent) reyndist ólíklegra en stuðningsfók annarra flokka til að vera með Costco aðildarkort. Jafnframt er stuðningsfólk Framsóknarflokksins (47 prósent) Vinstri grænna (54 prósent) ólíklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að endurnýja aðildina.