Settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu gerir þá kröfu í greinargerð sinni til Hæstaréttar að ákærðu í málinu verði sýknaðir í öllum ákæruatriðum.
Dömkröfur ríkissaksóknara eru þannig að ákærðu Kristján Viðar Viðarsson [Júlíusson], Sævar Marinó Ciesielski og Tryggvi Rúnar Leifsson verði sýknaðir af ákæru fyrir að hafa þann 27. janúar 1974 í félagi ráðist á Guðmund Einarsson í kjallaraíbúð í Hafnarfirði, á þáverandi heimili Sævars, og misþyrmt honum svo að hann hlaut bana af, og komið líki hans síðan fyrir á ókunnum stað.
Einnig að ákærði Albert Klahn Skaftason verði sýknaður af ákæru um að hafa tálmað rannsókn á broti hinna fyrrgreindu með því að veita þeim liðsinni við að fjarlægja og koma líki Guðmundar fyrir í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar í bifreið sem hann hafði til umráða og ók.
Að endingu að ákærðu Kristján Viðar, Sævar og Guðjón Skarphéðinsson verði sýknaðir af ákæru um að hafa misþyrmt þann 20. nóvember 1974 í félagi Geirfinn Einarsson þannig að hann hlaut bana af í Dráttarbrautinni í Keflavík. Að þeir hafi síðan flutt um nóttina lík hans í bifreið, er Guðjón ók, að heimili Kristjáns í Reykjavík. Daginn eftir hafi Kristján, Sævar og Erla Bolladóttir flutt lík Geirfinns í bifreið að Rauðhólum og greftrað þar líkamsleifar Geirfinns eftir að hafa hellt bensíni á líkama hans og lagt eld í.
Ríkissaksóknari gerir einnig þá kröfu að málsvarnarlaun skipuðum verjendum mannanna verði greidd málsvarnarlaun úr ríkissjóði.
Davíð Þór Björgvinsson er settur ríkissaksóknari í málunum, en hann hóf nýlega störf sem dómari við Landsrétt.
Margvíslegur vafi í mörgum atriðum
Kjarninn í niðurstöðu endurupptökunefndar í báðum málum hafi verið það að samanburður á nýjum gögnum og upplýsingum, þar á meðal um málsmeðferð við rannsókn og dómsmeðferð, og þeim gögnum sem lágu fyrir Hæstarétti, hafi varpað ljósi á svo mörg atriði í sönnunarmati í þeim þætti málsins sem varðaði aðild þeirra Sævars, Kristjáns og Tryggva að atlögu að Guðmundi Einarssyni og Sævars, Kristjáns og Guðjóns í atlögu Geirfinni Einarssyni, að telja verði að hin nýju gögn hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins hvað dómfelldu varðar, hefðu þau komið fram áður en dómur gekk. Endurupptökunefnd taldi að í mörgum atriðum hafi vantað upp á að dómfelldu hafi notið þess margvíslega vafa sem uppi var um málsatvik og að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
Í báðum tilfellum telur settur ríkissaksóknari að þetta eigi að leiða til þess að litið verði svo á að sakfelling dómfelldu í hvorum þætti málsins fyrir sig hafi ekki verið studd við sönnunargögn sem ekki verði véfengd með skynsamlegum rökum.