Notkun plastumbúða jókst á árunum 2014 til 2016 úr 13.660 tonnum í 15.029 tonn, eða um 10 prósent. Plastumbúðir sem skiluðu sér til endurvinnslu voru 4.478 tonn árið 2014 og 6.411 tonn tveimur árum síðar. Plastumbúðir sem skiluðu sér til brennslu með orkunýtingu voru 423 tonn árið 2014 og 666 tonn árið 2016. Plastúrgangur, þ.e. annar en plastumbúðir, sem skilaði sér til endurvinnslu voru 193 tonn árið 2014 og 666 tonn tveimur árum síðar.
Þetta kemur fram í svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um mengun af völdum plastnotkunar sem birtist á dögunum. Í svarinu kemur fram að áreiðanlegar tölur séu til frá Endurvinnslunni hf. og Úrvinnslusjóði yfir notkun plastumbúða, þ.e. magn umbúða sem settar eru á markað og afdrif þeirra, til dæmis til endurvinnslu. Ekki séu til áreiðanlegar tölur yfir notkun annars plasts en plastumbúða. Umhverfisstofnun safni þeim tölum saman frá þeim aðilum sem meðhöndla úrgang.
Jafnframt segir í svarinu að erfitt sé að leggja mat á hversu stór hluti þetta er af þeim plastúrgangi sem fellur til þar sem tölur yfir notkun vantar og töluverður hluti plastúrgangs fer að öllum líkindum með blönduðum úrgangsstraumum til förgunar.
Flutt inn 156 kg af innkaupapokum úr plasti á síðasta ári
Tekið er fram í svarinu að nýlega hafi tollflokkum fyrir plastumbúðir verið skipt upp þannig að hægt yrði að safna tölulegum upplýsingum um notkun einnota burðarplastpoka hér á landi. Alls hafi verið flutt inn 156 kg af innkaupapokum úr plasti árið 2017. Magntölur fyrir innlenda framleiðslu af innkaupapokum úr plasti séu ekki fáanlegar enn.
„Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að fram hafi farið beinar mælingar á mengun af völdum plastnotkunar á Íslandi. Það er þó rétt að benda á verkefni þar sem umfang úrgangs á ströndum er reglulega kannað. Plast er þar sérstaklega skoðað en athuga ber að uppruni plastsins er ekki endilega frá notkun á Íslandi, heldur berst hluti þess að öllum líkindum að utan með hafstraumum. Verkefnið er hluti af alþjóðlegu verkefni á vegum OSPAR sem er samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins.“
En hvað á að gera í málinu? Í svari ráðherra segir hann að árið 2016 hafi ráðherra gefið út stefnu um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun, sem hefur það að markmiði að draga úr myndun úrgangs og hráefnisnotkun og bæta nýtingu auðlinda. Árin 2016 til 2017 hafi áherslan verið á að draga úr sóun matvæla en næstu tvö ár verði áhersla lögð á að draga úr notkun plasts. Um þessar mundir vinni ráðuneytið, í samvinnu við undirstofnanir, að útfærslu og fjármögnun tillagna til að draga úr notkun plasts hér á landi.
Evrópusambandið ræðst gegn plastmengun
Kjarninn greindi frá því á dögunum að Evrópusambandið hafi einsett sér að allar plastumbúðir verði gerðar úr endurvinnanlegu efni fyrir árið 2030. Þannig verður dregið verulega úr notkun einnota plasts og skorður settar við notkun örplasts.
Áætlun ESB til að bregðast við plastmengun er ætlað að vernda náttúruna, verja íbúana og styrkja fyrirtækin samkvæmt tilkynningu frá sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi.
„Ef við umbreytum ekki plastnotkun okkar og framleiðslu, verður meira af plasti en fiski í sjónum okkar árið 2050. Við verðum að koma í veg fyrir að plast komist í vatnið okkar, matinn og jafnvel í líkama okkar. Eina langtímalausnin er að draga úr plastúrgangi með því að endurvinna meira og endurnýta. Þetta er áskorun sem borgararnir, iðnfyrirtæki og stjórnvöld þurfa að tækla í sameiningu,“ er haft eftir Frans Timmermans, fyrsta varaforseta framkvæmdastjórnar ESB, í tilkynningunni.
Minna en þriðjungur af því plasti sem Evrópubúar framleiða ratar í endurvinnslu. Plastrusl er 85 prósent af draslinu sem finnst á strandsvæðum víða um veröld. Plastefni er jafnvel farið að koma sér fyrir í lungum fólks og á matarborðinu. Það er örplast í lofti, vatni og fæðunni og áhrif þess á heilsu okkar eru óþekkt. Evrópusambandið hyggst takast á við þessi úrlausnarefni af fullri festu.
Örplast fannst í neysluvatni Reykvíkinga
Í frétt Kjarnans frá því í byrjun febrúar að í vatnssýnum sem safnað var úr vatnsveitu Veitna í Reykjavík hafi komið í ljós að 0,2 til 0,4 plastagnir fundust í hverjum lítra vatns. Eru þetta mun betri niðurstöður en birtar voru í erlendri skýrslu um örplast í neysluvatni sem var í fréttum hér á landi á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum. Sérfræðingur sem Kjarninn talaði við segir að þrátt fyrir jákvæðar niðurstöður þá beri að taka þær alvarlega. Frekari rannsókna sé þörf.
Örplast er heiti á plastögnum sem eru minni en 5 millimetrar að þvermáli. Örplast getur annars vegar verið framleitt örplast, sem til dæmis finnst í snyrtivörum, eða örplast sem verður til við niðurbrot, til að mynda úr dekkjum, innkaupapokum eða fatnaði.
Niðurstöður mælinga Veitna samsvara því að 1 til 2 slíkar agnir finnist í 5 lítrum vatns. Tekin voru stór sýni, eða 10 til 150 lítrar. Kom fram í fyrrnefndri erlendri skýrslu að 83 prósent þeirra 159 sýna sem hún byggir á, og tekin voru víðs vegar í heiminum, innihéldu að meðaltali tuttugufalt og allt að 400-falt magn plastagna miðað við það sem fannst í neysluvatni Reykvíkinga.
Lifum ekki í einangruðum heimi
Hrönn Jörundsdóttir, sviðsstjóri og sérfræðingur hjá MATÍS, sagði í samtali við Kjarnann að nauðsynlegt væri að finna uppsprettu örplasts, þ.e. hvaðan það komi. Hún sagði að þau hjá MATÍS væru að skoða þessi mál og að til stæði að birta skýrslu um örplast á Íslandi í náinni framtíð.
Varðandi niðurstöður úr sýnatöku Veitna þá sagði hún að það væri jákvætt að lítið örplast hafi greinst í sýnunum en á hinn bóginn þá væri það áhyggjuefni að plastagnir hafi fundist yfirhöfuð. Þetta sýndi að örplast sé víðar en fólk geri sér grein fyrir. „Það verður að taka þetta alvarlega, við erum ekki laus við þetta í okkar umhverfi frekar en aðrir,“ sagði hún og bætti því við að Íslendingar lifi ekki í einangruðum heimi og að þetta snerti okkur öll.