Ingvar Vigur Halldórsson frambjóðandi til formanns Eflingar fyrir A-listann, sem er listi uppstillingarnefndar félagsins, segir í aðsendri grein á Kjarnanum að fólkið á B-listanum séu leikarar í leikriti sem þau sömdu ekki handritið að.
„Í kosningum til stjórnar Eflingar í mars eru nú tveir listar. Það er hraustleikamerki í stóru og sterku verkalýðsfélagi að fólk vilji gefa kost á sér til forystu. Ég get samt ekki neitað því, að mér finnst óþægilegt til þess að vita að stjórnmálaflokkur skuli standa á bakvið framboð B-listans,“ segir Ingvar Vigur.
Ingvar segir næstum 70 ár síðan tengsl milli hreyfingarinnar og einstakra stjórnmálaflokka voru rofin. Hann segist enga athugasemd gera við að einstaklingar í verkalýðshreyfingunni og forystu hennar séu virkir í stjórnmálastarfi. Við séum örugglega öll rammpólitísk. Hins vegar hringi allar viðvörunarbjöllur þegar stjórnmálaflokkur noti afl sitt - leynt og ljóst, til að berjast fyrir tilteknu framboði. Hann segir jafnvel hægt að halda því fram að framboðið hafi komið fram af því að stjórnmálaflokkurinn lýsti eftir frambjóðendum.
„Þegar við bætist, að helsti forystumaður viðkomandi stjórnmálaflokks, Sósíalistaflokksins, hefur ekki hikað við að setja fyrirtæki í þrot og skilja starfsfólkið eftir, fyrirvaralaust án launa og réttinda og stéttarfélögin og Ábyrgðarsjóður launa eru látin sjá um réttindi starfsfólksins eins og gerðist á síðasta ári, þá er rétt að staldra við. Ekki var áhuganum á kjörum og réttindum launafólks fyrir að fara þá.“
Ingvar segir fólkið á B-listanum eflaust heilt í sínu, en hann sé hræddur um að þau geri sér ekki grein fyrir því að þau séu öll leikarar í leikriti sem þau sömdu ekki handritið að. Það sé hættuleg þróun „og ég vil með öllum mætti koma í veg fyrir það stjórnmálaflokkur, hvort sem það er Sósíalistaflokkur Gunnars Smára Egilssonar eða einhver annar, nái tökum á þessu félagi sem mér þykir svo vænt um.“