Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segist hafa upplifað samhljóm í gremju formanna verkalýðsfélaga út í aðstæður á vinnumarkaði á formannafundi sambandsins fyrr í dag þar sem kosið var gegn því að segja upp samningum við Samtök atvinnulífsins. Formenn aðildarfélaganna sem sátu fundinn hafi verið samhljóma í gremju sinni gagnvart þeim aðstæðum sem upp eru komnar.
„Það sem skildi á milli var meira svona þessi tímasetning, hvort það eigi að fara í það í mars eða apríl eða nota tímann fram á haust til að undirbúa félagsmenn okkar undir næstu lotu,“ en þar gerir hann ráð fyrir átökum „þá meina ég verkfallsátök,“ segir Gylfi í samtali við Kjarnann.
„Það er ekkert hægt að koma upp úr engu með það, það þarf að undirbúa slíkt. Að sama skai erum við stór og sterk hreyfing sem hefur skipulagshæfileika til að gera þetta. En til þess þarf náttúrulega samstöðu.“
Aðspurður um hvort þessi klofna niðurstaða, þar sem 28 vildu standa við samningana en 21 segja þeim upp, og að baki þeirra sem vildu segja þeim upp eru 66,9 prósent félagsmanna ASÍ, segir Gylfi formannafundinn vera lýðræðislegan vettvang til að taka svona ákvörðun.
Hann upplifði umræðuna og þá brýningu sem fram fór á fundinum með þeim hætti að allir væru meðvitaðir um að nú væri verk að vinna. „Það þarf að tala fólk inn á samstöðu, hún gerist ekki að sjálfu sér. Það er viðfangsefni hreyfingarinnar fram til haustsins, að tala fólks inn á samstöðuna.“