Þrátt fyrir að allar fimmtán þjóðirnar í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafi samþykkt vopnahlé á átakasvæðum í Sýrlandi, þá hefur það enga þýðingu haft á vígvöllunum í landinu.
Assad Sýrlandsforseti segir vopnahlé ekki koma til greina, á meðan skæruliðar séu með vopn, ekki síst í Austur Ghouta, þar sem almennir borgarar hafa verið stráfelldir á undanförnum vikum.
Sýrlandsher nýtur stuðnings Rússa og Írans, og fær óáreittur að stunda loftárásir og landhernað á svæðum þar sem þúsundir almennra borgara eru í mikilli hættu.
Öryggisráðið samþykkti 30 daga vopnahlé, en það hefur ekki enn orðið.
Bandaríkjastjórn hefur formlega fordæmt árásir Sýrlandshers og einnig gagnrýnt Rússa fyrir að grípa ekki inn í aðstæður, og virða vopnahléð.
Syrian President Bashar al-Assad declares that military operations in the rebel-held enclave of Eastern Ghouta will continue as the bombardment of the area moves into its third week https://t.co/DJFOpM3HRW
— CNN International (@cnni) March 5, 2018
Sýrlandsher hefur náð um fjórðungi Austur Ghouta héraðsins á sitt vald og er sótt að bænum Douma. Þaðan eru nú langar raðir flóttafólks, en á síðustu tveimur vikum er að talið að um 600 almennir borgarar hafi látið lífið í árásum Sýrlandshers. Að stórum hluta fjölskyldufólk með börn.
Óhætt er að segja að margra ára borgarstyrjöld í Sýrlandi hafi farið illa með landið, innviði þess og mannlíf. Talið er að tæplega 20 milljónir manna séu í landinu, og þar af séu meira en helmingur á flótta.