Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist bera fullt traust til allra ráðherra í ríkisstjórninni.
Stjórnarandstaðan spurði forsætisráðherra ítrekað út í stöðu Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra og þá réttaróvissu sem skapast hefur í íslensku réttarkerfi í kjölfar ákvarðana Sigríðar í Landsréttarmálinu í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.
Helga Vala Helgadóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þingmaður Samfylkingarinnar spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra út í málið. Hún sagði nú fimm mál til meðferðar í dómskerfinu vegna ákvarðana dómsmálaráðherra; tvö fyrir héraðsdómi, eitt í Hæstarétti og tvö fyrir Landsrétti.
Hún spurði ráðherra hvort hún hefði engar áhyggjur af stöðu dómskerfisins, áhyggjur af því að það sé laskað og verði áfram laskað nema gripið verði á einhvern hátt í taumana af hálfu forsætisráðherra. Helga spurði Katrínu einnig hvort dómsmálaráðherra njóti trausts forsætisráðherra sem yfirmaður dómsmála á Íslandi.
Katrín svaraði því til að málin sem Helga Vala vísaði til væru séu enn til umfjöllunar fyrir dómstólum og að hún vildi ekki tjá sig um mál sem svo væri ástatt um. Hún sagðist bera almennt traust til dómstólanna og taldi enga ástæðu til að grípa í taumana með neinum hætti hvað varði dómskerfið í landinu.
„Hvað varðar traustið á dómsmálaráðherra hæstvirtum þá ber ég fullt traust til allra ráðherra,“ sagði Katrín.
Helga Vala sagði það athyglisvert að heyra að dómsmálaráðherra njóti fulls trausts hjá forsætisráðherra, þegar hann hafi tvívegis verið dæmdur í Hæstarétti fyrir embættisfærslur sínar. „Sem fyrrum lögmaður hef ég verulegar áhyggjur af þessari stöðu, skaðabótaskylda íslenska ríkisins getur orðið slík að ég held að forsætisráðherra ætti líka að hafa áhyggjur af þessari stöðu.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata lagði sitt lóð á vogarskálarnar og óskaði eftir viðbrögðum forsætisráðherra, þar sem endanleg niðurstaða um hegðun dómsmálaráðherra lægi fyrir, burt séð frá málarekstri sem nú er í gangi í dómskerfinu. Hæstiréttur hafi þannig upplýst þegar um öll helstu atriði. Dómsmálaráðherra hafi þannig brotið gegn stjórnsýslulögum og efasemdir um hæfi Landsréttardómaranna muni plaga dómstólinn næstu árin og spurði Katrínu hvernig hún hygðist bregðast við fyrirséðri réttaróvissu í dómskerfinu næstu árin.
Katrín svaraði því aftur að henni fyndist mikilvægt að dómsvaldið fái að ljúka málsmeðferð sinni áður en framkvæmdavaldið færi að tjá sig um málið.
Katrín Jakobsdóttir lýsti yfir fullum stuðningi við dómsmálaráðherra þrátt fyrir að hún hafi tvívegis verið dæmd í Hæ...
Posted by Helga Vala Helgadóttir on Monday, March 5, 2018