Það verður „í minnum haft“ hvernig þingmenn munu ráðstafa atkvæði hér í dag. Þetta sagði Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í lok ræðu sinnar á Alþingi á sjötta tímanum í dag, þar sem til umræðu var tillaga um vantraust á hana, vegna skipan 15 dómara við Landsrétt.
Sigríður varði ákvörðun sína, og sagði hana hafa verið fyllilega eftir lögum. Hún sagði enn fremur, að þetta mál, í tengslum við skipan dómara við Landsrétt, væri dæmi um mál þar sem eðlilegt væri að dómstólar leystu úr málum þegar það væri ágreiningur um matskenndar reglur stjórnsýslunnar.
Vantrauststillaga ráðherra er nú rædd á Alþingi, sem Samfylkingin og Píratar standa að sameiginlega, en fyrsti flutningsmaður málsins er Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans í dag, og hefur verið rakið í umfjöllun Kjarnans um málið að undanförnu, þá snýst Landsréttarmálið um það að matsnefnd um hæfi umsækjenda um dómaraembætti við Landsrétt, nýtt millidómstig, lagði fram tillögu um 15 hæfustu einstaklinganna í fyrravor til að taka við 15 stöðum.
Sigríður ákvað að breyta þeirri tillögu og færa fjóra af lista matsnefndarinnar en setja fjóra aðra í staðinn. Í desember 2017 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum með athæfi sínu í málum sem tveir mannanna sem höfðu verið færðir af listanum höfðuðu. Hinir tveir hafa síðan höfðað bótamál á hendur ríkinu, og má gera ráð fyrir að þau mál fari alla leið í dómskerfinu.
Nú þegar hefur verið látið reyna á hæfi eins þeirra dómara sem bætt var inn á listann af Sigríði, Arnfríði Einarsdóttur. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður hefur krafist þess að hún víki sæti í máli, eins og greint hefur verið frá á vef Kjarnans, sem hann rekur fyrir dómstólnum á grundvelli þess að hún hafi ekki verið skipuð í embættið með réttum hætti.
Í greinargerð hans fyrir Hæstarétti segir m.a.: „Það að stjórnmálamenn, stjórnmálaflokkar, tiltekinn þingmeirihluti, sitjandi ríkisstjórn eða einstakur ráðherra eigi hönk upp í bakið á ákveðnum dómurum grefur undan sjálfstæði þeirra og getur með réttu veikt tiltrú almennings á dómskerfinu.“
Arnfríður er eiginkona Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem vék úr oddvitasætinu í kjördæmi sínu fyrir síðustu kosningar og eftirlét það Sigríði.
Brynjar telur sig ekki vanhæfan til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um vantraustið. Það gerir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ekki heldur, en fyrrverandi maður hennar, Ástráður Haraldsson, var einn þeirra sem færður var neðar á lista yfir þá sem matsnefndin taldi hæfasta.