Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur kyrrsett eignir meðlima Sigur Rósar, að kröfu tollstjóra. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, og er sagt að þetta tengist meintum skattsvikum meðlima sveitarinnar.
Um er að ræða kyrrsetningu upp á tæplega 800 milljónir króna sem nær til allra þriggja með- lima sveitarinnar; Jóns Þórs Birgissonar, Georgs Hólm og Orra Páls Dýrasonar.
Samkvæmt því sem fram kemur í umfjöllun Fréttablaðsins er ástæðan fyrir aðgerðunum rannsókn skattrannsóknarstjóra á meintum skattalagabrotum meðlima sveitarinnar. Krafan var tekin fyrir og birt þremenningunum í desember síðastliðnum.
„Undir hana falla kyrrsetningar á fasteignum, ökutækjum, bankareikningum og hlutafé í fyrirtækjum. Hæsta krafan var á hendur söngvara sveitarinnar, Jóni Þór, eða Jónsa líkt og hann er jafnan kallaður, en hún nam 638 milljónum króna. Þar er um að ræða kyrrsetningu á þrettán húseignum, tveimur bifhjólum og tveimur fólksbílum, sem og sex bankareikningum og hlutafé í þremur fyrirtækjum. Þá voru tvær fasteignir í eigu trommarans Orra Páls kyrrsettar, en verðmæti þeirra er um 82 milljónir króna. Tvær fasteignir í eigu bassaleikarans Georgs Hólm voru kyrrsettar og er verðmæti þeirra 78,5 milljónir,“ segir í Fréttablaðinu.
Allir þrír mótmæltu kyrrsetningunni á grundvelli þess að stór hluti hennar varði einfalda túlkun á tekjuskattslögum. Um hafi verið að ræða handvömm endurskoðanda en ekki ásetning um að fremja glæp.