Nokkur gagnrýni hefur látið á sér kræla varðandi dagskrá Lagadagsins 2018 sem haldinn verður þann 27. apríl næstkomandi á vegum Lögmannafélags Íslands, Lögfræðingafélags Íslands og Dómarafélags Íslands. Lagadagurinn hefur verið haldinn frá árinu 2008 og verið stærsti viðburður ársins meðal lögfræðinga með á bilinu 400 til 500 þátttakendur. Nú verður hann haldinn í tíunda sinn.
Nokkrar konur höfðu samband við nefnd sem sér um skipulagningu Lagadagsins og báðu um að sérstök málstofa yrði viðhöfð um #metoo-umræðu. Þegar dagskráin var síðan kynnt bólaði ekkert á slíkri umræðu eða málstofu og samkvæmt heimildum Kjarnans þá voru svörin á þá leið að málefnið myndi ekki trekkja nægilega vel að og of langt væri síðan yfirlýsing kvenna innan réttarvörslukerfisins hefði verið til að eiga erindi á viðburðinn.
Dagný Aradóttir Pind er ein þeirra sem gagnrýnt hefur dagskrána. Hún segir að málefnið eigi fullt erindi og rætt hafi verið innan stéttarinnar síðustu mánuði að mikil þörf væri á því að ræða #metoo enn frekar. „Við áttum okkur allar á því hvernig bransinn er en hann er sögulega mjög karllægur,“ segir hún.
Yfirlýsingin engu breytt
Dagný segist vera ósammála þessari túlkun. Hún segir að #metoo-umræður skipti enn máli, sérstaklega í ljósi þess að margar konur hafi ekki viljað skrifa undir yfirlýsinguna á sínum tíma eða deila sögum vegna smæðar samfélagsins. „Svona menningu verður ekki umturnað, einn, tveir og tíu,“ bætir hún við.
Hún segir að lögfræðingar vilji iðulega stíga varlega til jarðar og ræða hlutina út frá ýmsum hliðum. Þess vegna væri Lagadagurinn tilvalinn vettvangur enda mæti hundruð lögfræðinga á viðburðinn. Dagný bendir jafnframt á að #metoo sé enn í umræðunni víðs vegar um heiminn og enn sé full þörf á henni innan stéttarinnar. „Fyrr eða síðar verður að taka þetta almennilega fyrir. Það er ekki hægt að hunsa þetta,“ segir hún. Hennar tilfinning er nefnilega sú að yfirlýsingin á sínum tíma hafi engu breytt og að #metoo-umræður séu áframhaldandi verkefni í samfélaginu öllu.
Skipuleggjendur tilbúnir að hlusta á gagnrýni
Eyrún Ingadóttir, starfsmaður félagsdeildar hjá Lögmannafélagi Íslands, segir að gríðarlega mikið af tillögum hafi borist fyrir Lagadaginn. Hún segir ástæðuna fyrir því að ekki hafi verið tekin sú ákvörðun að hafa #metoo-umræður á dagskránni vera að þau hafi talið að umræðunni væri lokið og að um gamalt mál væri að ræða.
Hún tekur þó fram að skipuleggjendur séu tilbúnir að hlusta á gagnrýni, að þeir séu opnir fyrir breytingum og segir hún að málið sé í athugun. Hún segist bjartsýn á að breytingar verði á dagskrá vegna óánægjunnar.
Eyrún segir að málefnið sé mjög þarft en að það reynist hægara sagt en gert að þjóna öllum og að koma öllum þeim tillögum að sem berast. „Á Lagadeginum er verið að fjalla um mjög lögfræðileg efni, svo því sé haldið til haga. Og það koma bæði karlar og konur að dagskránni,“ segir hún.
Nú er unnið að því að bæta við einni málstofu, að sögn Eyrúnar. Ef það gengur þá munu verða #metoo-umræður á Lagadeginum 2018.