Reykjavíkurborg ætlar að fjölga ungbarnadeildum um helming næsta haust, fjölga leikskólaplássum um 750 til 800, byggja fimm til sex nýja leikskóla á næstu árum og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þetta mun kosta 632 milljónir á þessu ári og 1.100 milljónir árið 2019 sem munu fara í fjárfestingar og rekstur. Þetta kom fram á blaðamannafundi þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti aðgerðaáætlun í leikskólamálum.
Í tilkynningu frá borginni kemur fram að áætlunin geri ráð fyrir að sjö nýjum ungbarnadeildum verði komið upp næsta haust auk þess sem fimm til sex nýir leikskólar verði byggðir á næstu árum. Þá verði gripið til margvíslegra aðgerða til að bæta aðstöðu á leikskólum og vinnuumhverfi leikskólakennara og annars starfsfólks. Tillögur um uppbyggingu leikskólanna byggi á vinnu starfshóps um verkefnið að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, sem borgarstjóri skipaði vorið 2016.
Ungbarnadeildum fjölgar
Til stendur að börn frá 16 mánaða aldri byrji að komast inn á ungbarnadeildir næstkomandi haust. Á fundinum kom fram að markmiðið sé að innan sex ára geti öll tólf mánaða börn komist inn á leikskóla.
Næsta haust verður ráðist í næsta áfanga með opnun sjö ungbarnadeilda til viðbótar við leikskóla í Vesturbæ, Grafarvogi, Grafarholti og Hlíðahverfi. Þar með verða ungbarnadeildir starfandi í öllum borgarhlutum.
Þessum ungbarnadeildum verður heimilt að hefja inntöku barna yngri en 18 mánaða og er miðað við að í haust hefjist inntaka barna á ungbarnadeildir sem fædd eru í maí 2017, þ.e. barna sem verða 16 mánaða og eldri í september.
Plássum fjölgar um 110 til 126 á næstu 7 mánuðum
Lagt er til að opnaðar verða nýjar leikskóladeildir við leikskóla í þeim hverfum þar sem eftirspurn eftir leikskólaplássum er mest. Gert er ráð fyrir að þær leikskóladeildir verði meðal annars í Seljahverfi, Háaleiti, Fossvogi, Laugardal og Grafarholti. Þær aðgerðir munu fjölga leikskólaplássum um 110 til 126 á næstu sjö mánuðum.
Á næstu tveimur árum verður plássum fjölgað enn frekar með viðbyggingum og endurbótum á húsnæði. „En við þurfum að bæta við okkur nokkrum tugum starfsmanna við þessa uppbyggingu,“ segir Dagur. Hann segir jafnframt að það sé viðvarandi verkefnið að halda í gott starfsfólk en að vel hafi gengið í vetur, þrátt fyrir allt. Reykjavíkurborg sé búin að ráða um 100 einstaklinga inn á leikskólana.
Auglýsa störf fyrir ungt fólk
Aðgerðirnar sem kynntar voru í borgarráði í morgun fela enn fremur í sér að gripið er til margvíslegra aðgerða til að bæta vinnuumhverfi á leikskólum borgarinnar, segir í tilkynningu frá borginni. Þær byggi á tillögum starfshóps skóla- og frístundaráðs um nýliðun og bætt vinnuumhverfi leikskólakennara sem skilaði niðurstöðum í síðustu viku. Þar sé meðal annars lögð áhersla á aukið rými barna, fjölgun starfsfólks á elstu deildum, aukinn undirbúningstíma, fjölgun leikskólakennara og annars fagfólks, fjármagn til heilsueflingar og liðsheildarvinnu, aðgerðir til að efla móttöku nýliða meðal annars með leiðsagnarkennurum og handleiðslu, ímyndarvinnu og kynningu á störfum á leikskólum.
Loks var samþykkt í borgarráði í dag tillaga um að auglýst verði 60 sumarstörf á leikskólum fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á námi í kennslu- og uppeldisfræðum. Markmiðið er, samkvæmt tilkynningunni, að kveikja áhuga ungs fólks á því að starfa á leikskólum og leggja stund á nám í leikskólakennarafræðum. Dagur segir að Reykjavíkurborg hafi ekki auglýst slík sumarstörf í nokkur ár en nú fái leikskólar tækifæri til að ráða ungt fólk í tíu vikur sem eru forvitin og vilji prófa að vinna á leikskóla.
Fram kom á blaðamannafundinum að eins og staðan er í dag þá vanti að fylla í 20 stöðugildi á leikskólum í borginni. Nú sé nauðsynlegt að lokka fólk inn á leikskólana, til dæmis með því að bæta starfsumhverfi.