Sjötíu og fimm prósent af tekjum þeirra tónlistarmanna sem hafa tónlist að atvinnu hér á landi, stafa af flutningi lifandi tónlistar, samkvæmt því sem ný skýrsla Rannsóknarmiðstöðvar skapandi greina í Háskóla Íslands leiðir í ljós, og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag.
Þar kemur einnig fram að flutningur lifandi tónlistar hafi á árunum 2015-2016 staðið undir tæplega 60 prósent af heildartekjum iðnaðarins, en hljóðrituð tónlist og höfundarréttur um 20 prósent hvort.
Í rannsókninni, sem gerð var fyrir Samtón, Útón og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, kemur fram að heildartekjur íslenska tónlistariðnaðarins á þessum árum hafi verið 3,5 milljarðar króna, auk 2,8 milljarða í afleiddum gjaldeyristekjum til samfélagsins vegna komu tónlistarferðamanna til landsins.
„Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri Útón, segir í samtali við Morgunblaðið að könnunin gefi góða vísbendingu um styrk greinarinnar, einkum hvað varðar tónleikahald og hátíðir á Íslandi. Enn vanti betri gögn um útflutning íslenskrar tónlistar til að ná heildstæðri niðurstöðu þar um,“ segir í Morgunblaðinu.